Jarðstrengur í Vopnafjarðarlínu 1 tekinn í rekstur

12.11.2021

Fréttir
A construction equipment working on a pipeline or a road in a mountain terrain

Landsnet hefur tekið í notkun níu km jarðstreng fyrir Vopnafjarðarlínu 1.

Landsnet hefur tekið í notkun níu km langan jarðstreng yfir Hellisheiði eystri fyrir Vopnafjarðarlínu 1. EFLA sá m.a. um verkhönnun, útboðsgögn og sinnti verkeftirliti.

Vopnafjarðarlína 1 er um 60 km löng, 66 kV loftlína, sem liggur frá Lagarfossstöð til Vopnafjarðar. Rekstraraðilinn Landsnet tók ákvörðun um að leggja hluta hennar í jörð, á um tæplega níu km löngum kafla, yfir Hellisheiði eystri þar sem veðurskilyrði eru krefjandi, svæði torfarið og erfiðar aðstæður hvað varðar rekstur og viðhald línunnar. Jarðstrengurinn sem var lagður er einleiðara álstrengur, 630 mm2 , einn fyrir hvern fasa.

Undirbúningur hófst 2018

EFLA hóf vinnu að undirbúningi jarðstrengslagnarinnar 2018 með það í huga að koma strengnum fyrir í stað loftlínunnar á kafla þar sem línan liggur um snjóflóðasvæði og erfitt er um vik þegar kemur að viðgerðum að vetrarlagi. EFLA gerði verkhönnunarskýrslu 2020 og samtímis var unnið að samningum við landeigendur. Í kjölfarið var EFLU falið að gera útboðsgögn fyrir jarðvinnu og lagningu. Verkið var svo boðið út snemma árs 2021. Að því loknu var verkeftirlit boðið út og tilboði EFLU tekið í það fyrir sumarið 2021.

Krefjandi aðstæður á verkstað

Vegna hagstæðra veðurskilyrða sumarið 2021 tókst að vinna verkið markvisst og á góðum hraða, sem alls ekki var gefið fyrirfram, ekki síst vegna erfiðra landfræðilega skilyrða. Þessi strenglögn á sér fáa hliðstæðu á Íslandi varðandi landslag og staðhætti. Mjög mikill bratti er á sumum köflum jarðstrengsleiðarinnar og því vinnuumhverfi afar krefjandi.

Dýrmæt reynsla

Þrátt fyrir mikla reynslu við undirbúning og hönnun slíkra verkefna bætti starfsfólk EFLU mikið við í reynslubankann í þessu verkefni sem á sér fáar hliðstæður á Íslandi og er þakklátt fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í því. Slík reynsla er dýrmæt fyrir alla aðila sem komu að verkefninu og sú þekking mun nýtast EFLU í framtíðarverkefnum sem tengjast jarðstrengjum.

Við óskum Landsneti til hamingju með þetta mikilvæga framfaraskref og þökkum fyrir ánægjulegt samstarf.

Myndagallerí

Smelltu á örvarnar til að skoða myndir.