Jökulárnar fullar af áburðarefnum

03.06.2022

Fréttir
A person is lying on the ground reaching down into a ditch to catch a plastic container

Sýnataka í skurði í fyrstu vettfangsferð sumarsins sem var farin 16. maí.

Talsverður samfélagslegur og umhverfislegur ávinningur gæti hlotist af því að nýta áburðarefni sem finnast í íslenskum jökulám. Tveir sumarstarfsmenn EFLU munu framkvæma frumkönnun á viðfangsefninu fram í sumar. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Jökulárnar fullar af áburðarefnum

Heimsmarkaðsverð á áburði hefur rúmlega tvöfaldast frá byrjun árs 2021. Þetta þýðir að venjulegt blandað bú á Íslandi greiðir um 14-18 mkr. fyrir áburðinn í ár, samanborið við 6-8 mkr. vorið 2021. Í ljósi þess má gera ráð fyrir talsverðum afurðaverðhækkunum síðar á þessu ári. Þá veldur framleiðsla á tilbúnum áburði í heiminum um 3,5% af heildarlosun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að vetnið sem þarf til framleiðslu ammóníaks er unnið úr jarðgasi.

Heimildir um áttföldun uppskerunnar

Flóáveitan fagnaði nýverið 100 ára afmæli. Hugmyndina að áðurnefndu verkefni má rekja til þess að á veturna, en sérstaklega þó á vorin, geta myndast ísstíflur í Hvítá á Suðurlandi og þá getur árvatnið flætt inn á ræktarlönd. Fyrir daga Flóaáveitunnar olli þetta flóðum yfir láglendi Flóahrepps. Bændur tóku eftir því að ætíð var góð grasspretta á þeim svæðum sem flæddi inn á og heimildir eru til um áttföldun uppskerunnar.

Út frá þessari vitneskju kviknaði hugmyndin að Flóaáveitunni og kjölfarið varð ljóst að jökulár sem liggja frá eldvirkum svæðum bera með sér mikið magn efna með áburðarvirkni. Áburðarvirkni jarðvegs á eldvirkum svæðum í heiminum er þekkt enda teygja byggðir og ræktarlönd sig víða langt upp eftir hlíðum eldfjalla.

Í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli kom áburðarvirkni öskunnar vel fram og nú má sjá blómlega ræktun á þeim svæðum sem öskufallið var einna mest.

Kanna grundvöll þess að nota árvatnið í áburðarveitukerfi

Í sumar munu tveir háskólanemar starfa hjá EFLU við verkefni sem fékk úthlutaðan styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. EFLA leggur verkefninu til aðstöðu og sérfræðiþekkingu og eins styður fyrirtækið NPK verkefnið með fagþekkingu og íblöndunarefnum. Ábúendur á bænum Bræðratungu í Bláskógabyggð styðja verkefnið með dælingu árvatns á tilraunareiti sem þau leggja til.

Verkefnið snýst um að fara vel yfir fyrirliggjandi athuganir á samsetningu jökulvatns á Íslandi og greina sérstaklega þau efni sem finnast í Hvítá í maí, júní og júlí í ár. Einnig verður kannaður grundvöllur þess að nota árvatnið í áburðarveitukerfi sem jafnframt verður frumhannað og kostnaðargreint fyrir túnin í Bræðratungu. Áburðarveitan samanstendur af dælu- og íblöndunarstöð, þrýstilögnum og kastdreifurum.

Efnahagslegur, samfélagslegur og umhverfislegur ávinningur

Fyrir liggur að helst vantar köfnunarefni í árvatnið, því verður ammóníumnítrati einnig bætt út í vatnið í mismunandi styrkleika og borið á hluta túna í Bræðratungu. Grassprettan verður borin saman við svæði þar sem einungis árvatni verður veitt á.

Ef verkefnið gefur jákvæðar niðurstöður gæti aðferðin haft efnahagslegan, samfélagslegslegan og umhverfislegan ávinning sem gæti bylt áburðargjöf á Íslandi í framtíðinni. Þá yrði áburðarefnum dælt á túnin, bæði með því að nýta þau áburðarefni sem fyrirfinnast í jökulánum sem flestar renna um blómleg landbúnaðarhéruð landsins og bæta við þau köfnunarefni á fljótandi formi sem má í framtíðinni framleiða með grænu vetni og íslenskri raforku.

Niðurstöður verkefnisins verða teknar saman í skýrslu sem er að vænta í byrjun september.

A pastoral scene with a herd of horses

Tilraunareitirnir í Bræðratungu.