Fréttir


Fréttir

Málþing um náttúru og hönnun mannvirkja

17.8.2023

Í dag, fimmtudaginn 17. ágúst, klukkan 13:00 - 16:30, fer fram málþing í fyrirlestrarsal Grósku á vegum Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) sem ber yfirskriftina Náttúra og hönnun – hvernig fær náttúran aukinn sess í mannvirkjagerð? 

Málþingið er haldið í tengslum við norræna ráðstefnu landslagsarkitekta hérlendis, en FÍLA fagnar 45 ára afmæli í ár. Á málþinginu verður rætt hvernig hægt sé að auka veg náttúrunnar í hönnun mannvirkja og hvað vinnist með vel skipulögðum mótvægisaðgerðum. 


OmarÓmar Ingþórsson er formaður FÍLA
og starfar sem landslagsarkitekt á samfélagssviði EFLU. 

Fyrirlesarar málþingsins koma bæði frá Íslandi og Norðurlöndunum. Þeir hafa sérhæft sig í málefnum á borð við stöðu vistkerfa í byggðu umhverfi, lífsferilsmati í umhverfshönnun og hönnun sem samþættir loftslagslausnir og líffræðilegan fjölbreytileika ásamt því að skapa samfélagslega sterk rými í byggðu umhverfi. Íslenskir fyrirlesarar munu fjalla um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi, hvers þarf að horfa til í hönnun og áætlanagerð er varðar loftslagsbreytingar og einnig verður farið yfir feril þeirra áætlana sem liggja fyrir í Landmannalaugum.

Málþingið er opið öllum og aðgangur er ókeypis.

Nánari upplýsingar og dagskrá má finna hér á vefsíðu FÍLA