Fréttir


Fréttir

Ný brú yfir Varmá opnuð fyrir umferð

Suðurlandsvegur, forhönnun, verkhönnun, vegur, þjóðvegur, Varmá, veghönnun, brúarhönnun, lýsingarhönnun, aðlögun vatnsveitu, fráveita, umhverfisáhrif,

13.10.2022

EFLA sá um for- og verkhönnun á nýjum vegkafla og nýrri brú yfir Varmá, austan við Hveragerði, þar sem opnað var fyrir umferð í liðinni viku. Vegurinn myndar nýja tengingu milli Sunnumarkar í Hveragerði og Ölfusvegar austan Varmár og er verkefnið hluti af breytingu á Þjóðvegi 1 á milli Hveragerðis og Selfoss sem er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Hveragerðisbæjar.

  • bru-varma-hvero-1
    Ný brú yfir Varmá. Mynd | Vegagerðin.

Brúin er 47,8 metra löng eftirspennt plötubrú í þremur höfum með 7 metra akbraut, gangstétt og hjólareinar báðum megin akbrautar, heildarbreidd 14,6 metrar. Austan Varmár liggur nýr reiðstígur undir brúna, 4 metra breiður með 0,5 metra öxlum.

Varmá, norðan Suðurlandsvegar, er á náttúruminjaskrá. Þar er töluverð fiskgengd og því var reynt að valda sem minnstu raski á árfarveginum á framkvæmdatíma. Til að mynda var aðeins leyfilegt að vinna í árfarveginum frá 30. desember 2021 til 1. apríl 2022 með tilliti til veiðitíma og göngutíma fiska.

Auk þess að sjá um veg- og brúarhönnun sá EFLA um lýsingarhönnun á Sunnumörk, aðlögun vatns- og fráveitu á svæðinu, skilti og yfirborðsmerkingar, eftirfylgni á verktíma og fyrirspurn um matskyldu vegna umhverfisáhrifa framkvæmdanna við Varmá.

Bru-varma-hvero-2Mynd | Vegagerðin.