Fréttir


Fréttir

Ný tækni við að nýta lághitajarðvarma

28.6.2018

Á Flúðum er verið að reisa nýja lághita jarðvarmavirkjun. Í virkjuninni er notast við nýja tækni við nýtingu lághita til framleiðslu rafmagns. EFLA er aðalráðgjafi í sambandi við nýtinguna á jarðvarmanum og hönnun á lagnakerfi virkjunarinnar. 

Á Kópsvatni í Hrunamannahreppi er jarðhitahola sem gefur 116°C heitt vatn og flæði sem er 45 l/s. Holan hefur ekki verið nýtt en áform eru hjá Hitaveitu Flúða að tengja holuna við dreifikerfið á Flúðum. Nýja jarðvarmavirkjunin mun nýta um 40°C úr jarðhitavatninu til raforkuframleiðslu og skila jarðhitavatninu við um 76°C frá sér en það er kjörhitastig til notkunar í hitaveitu. Með þessari nýju virkjun verður jarðvarmaauðlindin nýtt betur en áður var mögulegt. 

Ný tækni

Það sem er einstakt við verkefnið er að verið er nýta lághita jarðvarma með nýrri tækni og framleiða rafmagn úr endurnýjanlegri auðlind á hagkvæman hátt.
Tæknin byggist á tvívökva tækni en þá er jarðhitavatnið notað til að eima vinnuvökva sem er inni í búnaðnum. Vinnuvökvinn fer í gegnum hverfil sem knýr rafal og býr til rafmagn. Tækni við tvívökvavirkjun er þekkt en þessar nýju framleiðslueiningar ná hærri nýtni úr lághita en hefur sést áður. Áður fyrr var talið óhagkvæmt að framleiða rafmagn úr lágvarma á Íslandi vegna lágs orkuverðs. Með þessum hætti er því bæði verið auka notkunargildi jarðhitasvæða og minnka sóun með því að nýta jarðvarma sem hefur áður fyrr verið talið óhagkvæmt að nýta.

Umfjöllun fréttamiðla

Þann 27. júní var svo haldin móttaka á Flúðum vegna formlegrar afhendingu nýrra aflvéla frá Climeon. Um 40 manns frá Svíþjóð og Japan voru mætt á svæðið ásamt ut­an­rík­is­viðskipta- og Evr­ópu­málaráðherra Svíþjóðar Ann Linde og utanríkisráðherra Íslands Guðlaugi Þór Þórðarsyni.