Nýtum allt til góðra verka

18.04.2024

Fréttir
Kynningarbás í stóru rými.

EFLA tekur þátt á fagsýningunni Verk og vit sem verður haldin í Laugardalshöll dagana 18.-21. apríl. Þemað í kynningarbás EFLU á sýningunni er Nýtum allt til góðra verka og tengist það endurnýtingu byggingarefna í nýbyggingum og öðrum byggingarverkefnum.

Bás úr endurnýttu efni

Kynningarbás EFLU á Verk og vit þetta árið er unninn í samstarfi við listamennina Adrian Frey Rodriguez og Narfa Þorsteinsson frá Verkvinnslunni. Allt efni í básnum, utan slökkvitækja, er endurnýtt byggingarefni sem kemur til með að verða nýtt áfram eftir að sýningunni lýkur.

„Samstarfið við Verkvinnsluna hefur gengið mjög vel. Þeir hafa komið fram með frjóar hugmyndir sem ríma mjög vel við það sem við vildum gera á þessari sýningu og þeim skilaboðum sem við viljum koma á framfæri,” segir Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá EFLU.

„Þeirra nálgun er auk þess í samræmi við þá stefnu sem við höfum sett okkur hér hjá EFLU um að vera í farabroddi þegar kemur að endurnýtingu og sjálfbærni í okkar verkefnum,” bætir Ólafur Ágúst við.

Sögunni lýkur ekki þar vegna þess að básinn mun öðlast framhaldslíf eftir sýninguna. Hluti bássins úr timbri mun vera setttur upp í vinnuaðstöðu Verkvinnslunnar og fær nýtt hlutverk þar. Þá verður steypuhluti bássins settur upp sem listaverk í höfuðstöðvum EFLU í Reykjavík.

Listaverk úr steypu.

Opið fyrir almenning laugardag og sunnudag

Sýningin er opin fyrir fagaðila fimmtudag og föstudag, en verður svo opin fyrir almenning laugardag og sunnudag. Opnunartími fyrir almenning er kl. 11:00 til 17:00 á laugardaginn og kl. 12:00 til 17:00 á sunnudag.

Samtök iðnaðarins standa fyrir ráðstefnu um fjárfestingu í samgönguinnviðum á Íslandi í tengslum við Verk og vit. Ráðstefnan er haldin í dag, fimmtudaginn 18. apríl kl. 14:00 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal, líkt og sýningin sjálf. Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, er ein þeirra sem tekur þátt og mun hún fjalla um umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu samanborið við aðrar borgir.