Fréttir


Fréttir

Önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar

borgarhverfi, gróðursvæði, stígar, torg, leiksvæði, Smárahverfi, Lindahverfi, Glaðheimahverfi, umhverfi, öryggi, mannvænt, Kópvogur, höfuðborgarsvæðið

31.3.2022

EFLA hlaut önnur verðlaun í opinni hugmyndasamkeppni Kópavogsbær, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, um þverun Reykjanesbrautar og svæðiskjarna í Smára með tillögu sinni Smárahvammur. 

  • Hópurinn á bakvið tillögu EFLU sem hlaut önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar.
    Hópurinn á bakvið tillögu EFLU sem hlaut önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar.

EFLA hlaut önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar og svæðiskjarna í Smára með tillögu sinni Smárahvammur. Kópavogsbær, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, efndi til opinnar hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut auk tengingar fyrir vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára, þ.e. Smára-, Linda- og Glaðheimasvæði.

Markmið tillögu EFLU er að tengja hverfahluta beggja vegna Reykjanesbrautar og gera umhverfið fallegt, öruggt og mannvænt. Með því að leggja hraða bílaumferð í stokk og endurheimta grænt yfirbragð á svæðinu aukast lífsgæði allra á svæðinu.

Smarahvammur-tillaga1Smárahvammur - hluti af tillögu EFLU.

Nútímalegt borgarhverfi

Tillagan gerir ráð fyrir að umferð um Reykjanesbraut fari í stokk frá Skógarlind að Bæjarlind og ofan á stokk í Smárahvammi myndast grænn ás sem tengir hverfin sitthvoru megin Reykjanesbrautar og inniheldur m.a. gróðursvæði, stíga, torg og leiksvæði. Smára-, Linda- og Glaðheimahverfi verður samvaxið, nútímalegt borgarhverfi í hjarta höfuðborgarsvæðisins. Þar verður nýr miðbær Kópavogs með nútímalegum, grænum og vistvænum áherslum. Almenningssamgöngum er gefið hátt undir höfuð og er kjarnastöð Borgarlínu staðsett í Smárahvammi við mót Fífuhvammsvegar.

Höfundar tillögunnar eru: Arna Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur, Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur, Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur, Hlynur Hugi Jónsson, landslagsarkitekt, Ómar Ingþórsson, landslagsarkitekt, Pétur Jónsson, landslagsarkitekt, Silja Traustadóttir, arkitekt, Svana Rún Hermannsdóttir, landslagsarkitekt, og Þröstur Þór Bragason, miðlunarfræðingur.

ASK arkitektar hlutu fyrstu verðlaun fyrir flotta og áhugaverða tillögu sem ber nafnið Borg í mótun/Grænn miðbær.

Smarahvammur-tillaga-kort-webKort af svæðinu.