Fréttir


Fréttir

Ráðstefna um bundin slitlög

14.9.2021

Vegagerðin heldur ráðstefnu þar sem fjallað verður um klæðingar og malbik á vegum. Fulltrúi EFLU heldur erindi á ráðstefnunni og segir frá niðurstöðum rannsóknarverkefnis um endingu malbikaðra slitlaga. 
  • Elín Ríta
    Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir heldur erindi um endingu slitlaga í malbiki á ráðstefnu Vegagerðarinnar.

Upp á síðkastið hefur töluvert verið fjallað um ástandið á malbikuðum slitlögum og endingu þeirra. Ástæður fyrir ástandinu á slitlögum og endingu þeirra er hins vegar ekki vel þekkt og í raun er ekki vitað hvort slitlög séu að endast skemur nú en áður eða hvort slitlögin séu einfaldlega endurnýjuð sjaldnar nú en áður.

Ending slitlaga í malbiki

Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir, skipulagsfræðingur hjá EFLU, flytur erindi á ráðstefnunni og segir frá niðurstöðum rannsóknarverkefnis þar var ending slitlaga í malbiki var könnuð. Verkefnið, sem hlaut styrk úr Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar, tók mið af gögnum frá mælingum á árunum 2007-2017. Teknir voru fyrir ákveðnir vegkaflar á helstu stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu, hjólför mæld, ending slitlaga skoðuð og reiknað úr kvarðað slit.

Einblínt var á vegkafla á höfuðborgarasvæðinu þar sem endurnýjun slitlaga er hvað mest. Minna fjármagn var til ráðstöfunar eftir 2008 og í nokkur ár þar á eftir fyrir viðhald slitlaga og því vaknaði sú spurning hvort nota eigi ódýrari aðferðir í meira magni til að viðhalda slitlögum, þó að endingartíminn væri eitthvað skemmri. Einnig var skoðað í hverju munar í endingu slitlaga á malbiksaðferðum og reynt að varpa ljósi á hvort það sé réttlætanlegt að í sumum tilfellum sé notast við ódýrari aðferðir í meira magni.

MalbikunareftirlitFrá malbikunarvinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Ráðstefna með erlendum og innlendum fyrirlesurum

Vegagerðin gengst fyrir heilsdags ráðstefnu um bundin slitlög þann 14. september 2021 í Hörpu. Fjallað verður um malbik og klæðingar frá mörgum sjónarhornum og kynnt saga bundinna slitlaga og verklag Vegagerðarinnar. Erlendir fyrirlesarar munu auk þess varpa ljósi á notkun bundinna slitalaga í sínum heimalöndum en þeir koma frá Bretlandi, Hollandi og Svíþjóð.

Nánari upplýsingar á vef Vegagerðarinnar.