Fréttir


Fréttir

Sérfræðingar EFLU koma að mælingum við nýjar gosstöðvar

21.7.2023

Read the story in English here.


Þann 16. júlí fór hópur vísindamanna, ásamt sérfræðingum frá verkfræðistofunni EFLU að gosstöðvunum við Litla Hrút.

Tilgangur ferðarinnar var að fá nákvæmt líkan af samsetningu gossins og mengunarinnar við gosstöðvarnar og eins að útbúa nákvæmt landmódel af yfirborðinu milli gosstöðvarinnar og Keilis. Þar hefur myndast kvikugangur undir yfirborðinu og leikur grunur á að sigdalur sé að myndast. Ein skýrasta leiðin til að rannsaka svæðið er að fá nákvæmt hæðarlíkan og bera það saman við eldri landlíkön af svæðinu.

Kort_oliÁ þessari mynd er hægt að sjá sig í kringum gosstöðvarnar sjálfar sem og þar sem kvikugangurinn liggur, alla leið að Keili. Þetta eru óstaðfest gögn um færslu upp á 70 sentimetra, kvikugangurinn liggur á um 300 metra dýpi.

Gróðureldar og gasmengun ollu því að Almannavarnir lokuðu svæðinu fimmtudaginn 13. júlí og var svæðið lokað í nokkra daga. Vísindafólkið kom frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Leeds háskóla, Háskólanum í Nýju-Mexíkó og Universidad Nacional de Costa Rica, Atmospheric Chemistry Lab.

Þessi fjölbreytti hópur safnaði gögnum um samsetningu gosskýsins og reyksins sem kemur frá brennandi mosanum í kringum gosstöðina. Sérfræðingar EFLU sáu um myndmælinguna milli gosstöðvarinnar og Keilis ásamt samskiptum við flugturn. Sérfræðingar frá Svarma aðstoðuðu vísindafólkið frá Leeds háskóla. Verkefnastjórnun og samhæfing var á vegum Veðurstofunnar og Geimvísindastofnunar Íslands.

DJI_0647Hópurinn starfaði bæði austan- og vestanmegin við gosstöðina og gekk verkefnið samkvæmt áætlun, enda var hópurinn einstaklega vel samstilltur og fyllsta öryggis gætt allan tímann.

Hér má sjá þrívíddarlíkanið sem kom út úr myndmælingum EFLU:


Hér má sjá drónatökur EFLU af gosinu: 

Litli Hrútur