Sex nýsköpunarverkefni EFLU hlutu styrk

27.09.2023

Fréttir
The image displays texts set against the background with a geometric shapes and design

EFLA hlaut styrki fyrir sex nýsköpunar -og rannsóknarverkefnum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna á liðnu sumri. Átta sumarstarfsmenn unnu að verkefnunum ásamt sérfræðingum EFLU.

Sex nýsköpunarverkefni EFLU hlutu styrk

Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU og leiðbeinandi í tveimur nýsköpunar- og rannsóknarverefnum segir „nýsköpunar- og rannsóknarverkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna hafa verið gríðarlega góð tækifæri til þess að stuðla að nýsköpun og framþróun í þeim málaflokkum sem við vinnu við dags daglega. Þá er sjóðurinn frábært tækifæri til þess að fá til okkar og kynnast metnaðarfullum nemendunum, og í senn gott tækifæri fyrir nemendur að kynnast störfum hjá EFLU.“

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þau verkefni sem hlutu styrki, leiðbeinendur og nemendur og stutta umfjöllun um hvert verkefni:

Virkjun vatnsfalls í frárennsli landeldis

Leiðbeinandi: Jón Heiðar Ríkharðsson

Nemandi: Helga María Magnúsdóttir

Markmið verkefnisins var að kanna möguleika á að virkja vatnsfall í frárennsli frá landeldisstöðvum í laxeldi. Horft var bæði til arðsemi slíkrar orkuvinnslu en ekki síður til tæknilegrar raunhæfni.

Miðað var við nokkuð hefðbundna útfærslu íslenskra landeldisstöðva sem eru hannaðar með u.þ.b 2/3 endurnýtingu á eldisvatninu. Þ.e endurnýting vatns án lífsíu.

Skoðaðar voru þrjár meginútfærslur til að koma fyrir vatnshverflum í frárennsli frá landeldinu án þess að hafa áhrif á síun frárennslisvatnsins

  1. Hverfill í síurými hverrar eldiseiningar sem er með sameiginlega síun frárennslis
  2. Fráveitu- og hringrásarsía sameinaðar við efri brún vatnsborðs í kerjum. Fráveitustraumurinn úr öllum kerfum sameinast og fer í gegnum einn hverfil
  3. Ósíuð fráveita sameinuð í einn straum og ósíuð í gegnum hverfla og síðan síur sem staðsett eru miðlægt.

Fyrir eldi að stærðargráðunni 10.000 tonn af laxi var kostnaður við þessar útfærslum metinn á bilinu 420 - 520 milljónir króna sem skiluðu árlegum tekjum á bilinu 39 til 45.

Miðað er við 5 % ávöxtunarkröfu og 25 ára líftíma fyrir þessa fjárfestingu og eru innri vextir útfærslu eitt og tvö yfir 4 % og því ekki hægt að útiloka að slíkar útfærslur geti skilað arðsemi. Sérstaklega ef grunnforsenda eins og orkuverð hækki í framtíðinni, sem verður að teljast líklegt.

Nánar verður fjallað um niðurstöður þessa verkefnis á ráðstefnunni „Lagarlíf“ sem fer fram á Grand Hótel dagana 12. - 13. október.

Efling vistvænna ferðavenja hjá vinnustöðum

Leiðbeinandi: Daði Baldur Ottósson

Nemandi: Ásmundur Jóhannsson

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu mynda hlutfallslega stærsta útstreymisspor gróðurhúsaloftegunda á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna eru samgöngumál ein stærsta (ef ekki sú stærsta) áskorunin í baráttunni við minnkun á losun gróðurhúsaloftegunda. Sem dæmi þá er hlutfall útlosunar vegna samgangna hjá Reykjavíkurborg 2/3 hluti af heildarútlosun borgarinnar og má gera ráð fyrir svipuðu hlutfalli hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Í dag nýta fyrirtæki og stofnir helst samgöngusamninga, umhverfisstefnur og sérstök átök til að hvetja starfsfólk sitt til koma til vinnu á umhverfisvænni hátt. Markmið verkefnisins var að finna til frekari aðgerðir og lausnir sem fyrirtæki og stofnanir geta gripið til, til að fjölga þeim sem koma vistvænt til vinnu. Nokkrum aðgerðum var hrint var af stað innan EFLU, s.s. að bjóða upp á fría strætómiða, fríar ferðir með rafhlaupahjólum og bjóða starfsfólki upp á að fá rafmagnshjól lánað. Þá var innleiddur hugbúnaður sem gerir vinnustöðum kleift að umbuna starfsfólki daglega fyrir ferðir með vistvænum hætti.

Innleiðing vottunar vegna endurheimtar votlendis

Leiðbeinandi: Alexandra Kjeld

Nemandi: Salvör Svanhvít Björnsdóttir

Um þessar mundir stendur yfir innleiðing vottunarkerfa á Íslandi til þess að framleiða kolefniseiningar á valfrjálsum markaði. Til eru ólík kerfi, bæði alþjóðleg og innlend, sem hafa verið í notkun og er markmið verkefnisins að bera saman kosti og galla ólíkra kerfi í íslensku samhengi fyrir vottun kolefniseininga með endurheimt votlendis. Framræst votlendi er stærsti einstaki losunarvaldur í losunarbókhaldi Íslands og mikið óunnið verk framundan af hálfu opinberra aðila og einkaaðila að vinda ofan af áratuga framræslu votlendis sem í dag nýtist ekki til landræktar.

Snjallvæðing samgangna á höfuðborgarsvæðinu

Leiðbeinandi: Daði Baldur Ottósson

Nemendur: Blazej Kozicki og Atli Freyr Þorvaldsson

Á höfuðborgarsvæðinu í dag er gríðarlegu magni umferðargagna safnað. Þessi gögn koma mepal annars úr leiðsögutækjum ökutækja, snjalltækjum og strætisvögnum og innihalda ýmsar upplýsingar, s.s. um notkun, ferðatíma og leiðarval. Samhliða því má á fjölmörgum stöðum finna myndavélar sem eru notaðar til að fylgjast með umferð og færð í rauntíma og/eða í öryggistilgangi. Engra tölulegra gagna er aflað með þessum myndböndum en myndgreiningartækni getur boðið upp á slíka hagnýtingu.

Verkefnið fólst í því að greina tækifæri sem ofangreind tækni býður upp á og voru sett fram nokkur dæmi um nýtingu hennar.

Líta má á myndgreiningartækni og notkun ferilgagna, sem er viðfangsefni þessarar rannsóknar, sem tvö stærstu tækifærin í dag til snjallvæðingar samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Kolefnisfótspor brimvarnargarða

Leiðbeinandi: Majid Eskafi

Nemandi: Elísabet Sunna Gunnarsdóttir

Með vaxandi nauðsyn til takast á við loftslagsbreytingar og draga úr umhverfisáhrifum frá byggingu mannvirkja er mikilvægt að rannsaka og innleiða umhverfisvænni kosti. Rannsóknin fjallaði um að meta kolefnisspor frá byggingu brimvarnargarða. Rannsóknin skoðar samanburð á kolefnisspori frá byggingu íslenska bermugarðsins og hefðbundins brimvarnargarðs (ConRMB) með steyptum einingum með ýtarlegri lífsferilsgreiningu. Lífsferilsgreiningunni er skipt niður í nokkra hluta: öflun/framleiðsla á byggingarefnum, flutningur á byggingarstað og samsetning á byggingarstað.

Íslenskur bermugarður býður upp á hönnun sem nýtir náttúrulegt berg sem gefur tækifæri til að draga verulega úr hnatthlýnunarmætti frá byggingu brimvarnargarða.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að íslenskur bermugarður hefur þó nokkra kosti fram yfir ConRMB þegar kemur að kolefnisspori byggingar brimvarnargarðs í Straumsvíkurshöfn á Íslandi. Umfram allt er íslenski bermugaðurinn með verulega lægri hnatthlýnunarmátt samanborið við hefðbundinn brimvarnargarð. Sú innsýn sem fæst með þessari rannsókn veitir mikilvægar upplýsingar fyrir ákvarðanatöku hagsmunaaðila.

Hitameðferðir úrgangsstrauma í hringrásarhagkerfi

Leiðbeinandi: Stefán Þór Kristinsson

Nemendur: Eldar Máni Gíslason og Benedikt Guðbrandsson

Gerð var frumáræðanleikakönnun á því hvort nota megi gösun og pýrolýsu til að framleiða eldsneyti úr íslenskum úrgangi. Farið var yfir ýmsa áhrifaþætti á borð við flutninga, umhverfisþætti og búnað. Úrgangsstraumar voru teknir saman og áætlaðir til framtíðar, samsetningin var skoðuð og einnig orku- og rakainnihald. Þessir þættir eru sérlega mikilvægir þegar kemur að framleiðslu afurða úr úrgangi. Búnaður til framleiðslu á flugvélaeldsneyti var skoðaður sérstaklega, en hann er flóknari og dýrari en sambærilegur búnaður fyrir annarskonar eldsneyti t.d. metanól eða ammóníak.

Rýnt var í lög og reglugerðir hvað varðar umhverfismál o.fl. Farið var yfir hvað skilgreinist sem grænt eldsneyti og úr hverju það má vera. Þessar reglur eru nú í mikilli endurskoðun og verða stöðugt strangari. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast vel með hvað gildir í dag og hvað er líklegt til að gilda í framtíðinni.

Gert var stutt mat á umhverfisþáttum og rætt var um helstu úrgangsstrauma gösunar. Þá var unnin kostnaðargreining þar sem framleiðsla mismunandi afurða var borin saman.