Skógarböðin í Eyjafirði opnuð

28.05.2022

Fréttir
An outdoor thermal pool with clear blue water, surrounded by wooden structures and nature

Skógarböðin í Eyjafjarðarsveit. Mynd | Axel Þórhallsson.

EFLA sá um verkfræðihönnun Skógarbaðanna í Eyjafjarðarsveit sem voru opnuð fyrir almenning um helgina. Samstarfsaðilar EFLU voru hönnuðir frá Basalt Architects og Landslagi.

Um er að ræða nýjan áningarstað ferðamanna við rætur Vaðlaheiðar. Byggingin sem hýsir búningsklefa, veitingarekstur ásamt starfsmannaaðstöðu er um 850 m2 og laugarnar tvær samtals 540 m2. Umhverfi staðarins er einstakt þar sem böðin eru umkringd skógi og útsýnið úr böðunum stórbrotið yfir Eyjafjörðinn og Akureyri.

EFLA leiðandi á Norðurlandi

Forsaga málsins nær aftur til ársins 2014 þegar mikið af heitu vatni fannst við borun Vaðlaheiðarganga. Í lok árs 2020 settu Skógarböð ehf. sig í samband við EFLU um að koma að verkfræðihönnun nýrra náttúrubaða þar sem heita vatnið yrði nýtt. Starfsfólk EFLU býr yfir mikilli reynslu í hönnun náttúrubaða víða um land og rekur m.a. starfsstöð á Akureyri og því féll Skógarbaðaverkefnið vel að starfseminni.

„EFLA hefur komið að hönnun náttúrubaða um land allt s.s. Vök Baths, Bláa Lóninu og Jarðböðunum. Starfsstöð EFLU á Akureyri var leiðandi í verkefninu og nýtti sér jafnframt hönnuði nátturubaða á öðrum starfsstöðvum,“ segir Hjalti Már Bjarnason, svæðisstjóri EFLU á Norðurlandi.

A nighttime scene of a coastal area with illuminated buildings alongside the water

Mynd | Axel Þórhallsson.

Reynsla starfsfólks EFLU mikilvæg

Reynsla starfsfólks EFLU nýttist einkar vel til að mæta þeim áskorunum sem verkefnið fól í sér. „Tímalínan í verkinu var ákveðin áskorun og mikill hönnunar- og framkvæmdhraði krafðist góðrar samræmingar og verkstýringu hönnuða, verktaka og verkkaupa. Það verður samt ekki annað sagt en að mjög vel hafi til tekist og böðin opnuð innan við 1,5 ári frá því að hönnun hófst,“ bætir Hjalti Már við.

Hlutverk EFLU var hönnun á burðarvirki húss og lauga, lagnir húskerfis, laugakerfi, rafkerfi, hljóðvist, brunahönnun, hússtjórnarkerfi og stýringar. Ein af sérstöðum Skógarbaðanna er að allt vatn þ.e. laugarvatn sem og heitt og kalt vatn til neyslu og húshitunar kemur úr Vaðlaheiðargöngum og því engir hefðbundnir veitustofnar fyrir vatn.

Öll hönnun miðaðist við að hámarka notagildi byggingarinnar ásamt því að skapa góða upplifun fyrir gesti. EFLA sá einnig um lýsingarhönnun og var byggingin hönnuð til að falla vel að umhverfinu með sínu eigin ljósi. Stórir gluggar ramma inn stórbrotið útsýnið og lágstemmd lýsingin veldur eins lítilli truflun og mögulegt er. Einstök viðfangsefni s.s. tré og lækir eru dregin fram með áhrifaríkri lýsingu.

Starfsfólk EFLU óskar Skógarböðunum innilega til hamingju með þennan nýja glæsilega stað sem á sannarlega eftir að setja sinn svip á Akureyri og nágrenni.

An outdoor pool with calm, clear water flanked by large rocks

Mynd | Axel Þórhallsson.