Styrkur til Glatvarma á Bakka

04.01.2024

Fréttir
The image shows an industrial facility with large plant and processing facility set against a clear sky with some cloud cover

EFLA tekur þátt í verkefninu Glatvarmi á Bakka sem nýverið fékk úthlutaðan styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Rannsaka hagkvæmni nýtingar á glatvarma

Um er að ræða samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon og Orkuveitu Húsavíkur til að kanna hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.

Í verkefninu felst söfnun og greining gagna sem nauðsynleg eru fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma frá kælikerfi PCC Silicon á Bakka fyrir utan Húsavík. Í fyrsta áfanga verður eingöngu litið til nýtingar varma frá varmaskiptakerfi ofnakælingar. Markmiðið er að sjá hvort það sé hagkvæmt að nýta varmann í uppbyggingu hitaveitu á Bakka þar sem grænn iðngarður verður byggður upp á næstu árum og sú leið borin saman við kostnað á hefðbundinni framlengingu dreifikerfis Orkuveitu Húsavíkur frá Húsavík að Bakka.

Aðkoma EFLU að verkefninu er mat á líklegum afköstum og gæðum nýtingar glatvarma frá ofnum og raunhæfri orkunotkun grænna iðngarða. Einnig frumathugun tenginga við núverandi varmaskiptakerfi, þ.e. varmaskipta, lagnir og stýringar, og lagnir að lóðum grænna iðngarða. Auk þess að meta gróflega kostnað helstu liða og áætla kostnaðarverð orku með grófu hagkvæmnimati. Starfsfólk EFLU á Norðurlandi mun vinna þetta verkefni.