Sumarstarfsfólk | Þekking sem kemur að góðum notum

26.08.2022

Fréttir
A smiling people with glasses positioned in a laboratory setting with a microscope and bookshelves in the background

Hjördís Birna Árnadóttir.

„Það hefur gengið mjög vel og ég hef lært heilan helling. Ég er miklu fróðari um myglu í húsnæði og húsasmíði en ég var í byrjun sumars og ég veit að þessi þekking kemur til með að koma að góðum notum í framtíðinni,” segir Hjördís Birna Árnadóttir, 22 ára Reykvíkingur sem starfaði sem sumarstarfsmaður hjá EFLU í sumar.

Sumarstarfsfólk

Hjördís Birna, sem útskrifaðist í vor með B.Sc. gráðu í lífefna- og sameindalíffræði frá Háskóla Íslands, vann að rannsóknarverkefni í sumar styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna þar sem hún skoðaði myglu í steypu og hvernig sýrustig steypunnar hefur áhrif á mygluvöxtinn. „Ég er búin að greina 45 steypusýni í víðsjá. Þá skrái ég niður hjá mér hvort ummerki um mygluvöxt séu til staðar og þá hversu djúpt myglan nær inn í sýnið,” segir Hjördís Birna.

„Svo sprauta ég phenolphthaleinlausn yfir sýnið sem litast bleikt ef það er basískt en heldur sama lit ef steypan hefur súrnað. Ég skrái líka hjá mér aldur steypunnar og er núna að vinna úr öllum niðurstöðum sem ég set svo fram í lokaskýrslu,” útskýrir Hjördís Birna enn frekar varðandi vinnuna við rannsóknarverkefnið.

Two samples of rocks under Ultraviolet light revealing different results

Eftirlitsferðir á vinnusvæðum

Hún hefur einnig aðstoðað starfsfólkið í teyminu á byggingarsviði EFLU við hin ýmsu verkefni. „Ég hef m.a. komið með í heimilis- og fyrirtækjaskoðanir þar sem við rakaskimum veggi og gólf og leitum að ummerkjum um rakaskemmdir og myglu,” segir Hjördís Birna og bætir við. „Stundum eru tekin sýni úr byggingarefnum og þá hef ég verið að skoða þau í smásjá og víðsjá til að gá hvort mygla sé að vaxa í þeim. Ég hef líka komið með í eftirlitsferðir á vinnusvæði þar sem verið er að fjarlægja rakaskemmt byggingarefni, finna orsök leka og fyrirbyggja frekari rakaskemmdir og mygluvöxt.”

Hún segir að þessi reynsla muni nýtast henni vel í framtíðinni, ekki síst ef hún mun halda áfram vinnu við myglurannsóknir. „Ég hef aflað mér mikilla upplýsinga um myglu í húsnæði og skaðsemi hennar auk þess sem ég hef lært að taka aukna ábyrgð í starfi. Annars er ég núna orðin meira vakandi fyrir myglu og rakaskemmdum í mínu nánasta umhverfi og veit hversu mikilvægt er að viðhalda góðu ástandi bygginga til að forðast myglutjón”, segir Hjördís.

A close up photo pf minerals showing different textures

Myndir úr rannsóknarverkefni Hjördísar Birnu.

Framhaldsnám í Kaupmannahöfn

Samkvæmt Hjördísi tók starfsfólk EFLU henni mjög vel. „Fólkið í teyminu mínu er mjög vingjarnlegt og er alltaf til í að taka mig með í eftirlitsferðir og skoðanir, sem ég hef mjög gaman af,” segir Hjördís sem fer brátt til Kaupmannahafnar í framhaldsnám. „Ég ætla í mastersnám í örverufræði í haust í Kaupmannahafnarháskóla (KU). Svo er stefnan sett á vinnumarkaðinn þar sem ég get vonandi nýtt þekkingu mína í frekari rannsóknarstörfum,” segir Hjördís Birna að lokum.

A woman looking into a microscope

Hjördís Birna í vinnunni í sumar.