Þjóðhagslegur kostnaður raforkuskerðinga síðasta árs
vinnslugeta, útflutningsverðmæti, fjarvarmaveitur, fiskvinnslur, innrennsli, miðlunarlón, flutningsgeta, vatnsaflsvirkjanir, raforkuvinnsla,
EFLA vann nýlega að greiningu fyrir Landsnet á umfangi skerðingar á raforku veturinn 2021-2022 og þeim þjóðhagslega kostnaði sem skerðingarnar höfðu í för með sér.
Með greiningunni stóð til að varpa ljósi á hversu mikið hefði verið hægt að koma í veg fyrir skerðingar á raforku með aukinni flutningsgetu á byggðalínuhringnum.
Sökum þurrkatíðar á Suður- og Suðvesturlandi árið 2021 var innrennsli í miðlunarlón töluvert minna en í meðalári og var vinnslugeta virkjana á Suðurlandi því skert veturinn 2021-2022. Vegna minnkaðrar vinnslugetu þurftu fiskvinnslur og fjarvarmaveitur að brenna olíu auk þess sem útflutningsverðmæti í stóriðju töpuðust.
Á sama tíma var innrennsli í miðlunarlón á Norður- og Austurlandi með eðlilegu móti sem þýddi að lón fylltust og orka tapaðist með yfirfalli. Sökum skorða í flutningsgetu núverandi flutningskerfi raforku var ekki hægt að stýra vinnslu vatnsaflsvirkjana milli landshluta til að nýta innrennsli í lón með sem hagkvæmustum hætti til að koma í veg fyrir skerðingar nema að takmörkuðu leyti.
Hægt að koma í veg fyrir skerðingar
Niðurstaða greiningar EFLU sýnir að 300 GWh raforkuvinnslu hafi vantað upp á til að uppfylla orkuþörf fjarvarmaveitna, fiskvinnsla og stóriðju sunnan flutningssniðs IIIb, allt landssvæði utan Norður- og Norðausturlands, og nemur það um 1,5% af heildar raforkunotkun Íslands. Greiningin sýnir einnig fram á að ef búið væri að uppfæra byggðalínuna á sama hátt og áætlanir um uppbyggingu flutningskerfis kveða á um, hefði verið hægt að koma alfarið í veg fyrir skerðingarnar.
Þjóðhagslegur kostnaður sem hlaust af skerðingunum var metinn um 5,3 milljarðar króna og var þar horft til olíukaupa, olíubrennslu og samdrátts í útflutningi frá stóriðju. Að auki jókst losun gróðurhúsategunda vegna olíubrennslu sem hefur neikvæð áhrif á loftslagsbókald Íslands. Til að setja þjóðhagslega kostnaðinn í samhengi má nefna að bygging flutningslína á milli Fljótsdals og Kröflu myndi kosta 7,7 milljarða króna og 9,2 milljarða króna á milli Kröflu og Akureyrar. Flutningslínurnar myndu gagnast orkukerfinu með aukinni skilvirkni og nýtingu næstu 50 til 70 árin.
Hér má finna skýrslu EFLU um Þjóðhagslegan kostnað vegna takmarkana í flutningskerfi raforku.