Uppbygging norska flutningskerfisins með sjálfbærni að leiðarljósi
Statnett, LCA, Vistferilsgreining, Kolefnisspor, Flutningskerfi, Noregur
Statnett, sem rekur flutningskerfi raforku í Noregi, hefur þróað möstur sem fyrirhugað er að nota við uppbyggingu flutningskerfisins. Til að meta umhverfisáhrif mastranna var EFLA fengin til að gera vistferilsgreiningu og meta kolefnisspor þeirra.
-
Umhverfisáhrif mastra metið í Noregi.
Sjálfbær orkunýting helst í hendur við sterkt flutningskerfi sem byggt er upp í sátt við samfélag, efnahag og umhverfi. Nauðsynlegt er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að nýta auðlindir jarðarinnar sem best. Góð uppbygging flutningskerfis er ekki síður forsenda þess að tryggja afhendingaröryggi og sveigjanleika til þess að mæta þeim áskorunum sem eru á döfinni, t.d. orkuskipti farartækja.
Umhverfisvænni lausnir
Statnett hefur þróað bæði álmöstur og stöguð M-möstur sem fyrirhugað er að nýta í norska flutningskerfinu. Er þetta liður í rannsóknar- og þróunarverkefni hjá Statnett þar sem leitað er hagkvæmra og umhverfisvænna lausna til uppbyggingar 420 kV flutningskerfisins. Til þess að afla meiri upplýsinga um umhverfisáhrif þessara ólíku mastrategunda fékk Statnett EFLU til að gera samanburðarrannsókn þar sem notuð var aðferðafræði vistferilsgreiningar (e: LCA, Life Cycle Assessment).
Þrjár tegundir af möstrum, þ.e. hefðbundin stálmöstur sem eru notuð í dag, álmöstur og M-möstur, voru borin saman með þessari aðferðafræði og var tekið mið af dæmigerðum aðstæðum í Noregi. Samanburðurinn tók mið af öllum stigum vistferils eins masturs, þ.e. frá öflun og vinnslu hráefna, framleiðslu, flutningi þess og byggingu á verkstað og til förgunar þess og endurvinnslu að líftímanum loknum.
Endurvinnsla skiptir sköpum
Þegar tekið var tillit til alls vistferilsins var kolefnisspor álmastursins lægra en stálmastursins og skipti endurvinnsla álsins sköpum í greiningunni þar sem ál má endurvinna eða endurnota með góðum árangri. Þegar málmar, t.d. ál og stál, eru endurunnir er á móti komið í veg fyrir frumframleiðslu þeirra og það sparar bæði orku og hráefni. Til þess að ná einnig utan um framboð brotamálma í heiminum í dag sem og virðisbreytingu þeirra þegar þeir eru endurunnir er þeirri aðferðafræði beitt að styðjast við virði brotamálmi gagnvart nýframleiddum málmi á heimsmarkaði. Heimsmarkaðsvirði endurunnins áls gagnvart nýframleiddu áli er í dag hærra en virði endurunnins stáls gagnvart nýju stáli og skýrir það niðurstöður greiningarinnar álmöstrunum í hag. Álmöstrin henta þó ekki í öllum tilfellum og er næsta skref hjá Statnett að prófa þau enn frekar fyrir mismunandi veðurfarsaðstæður.
M-möstur koma vel út
Stöguð M-möstur (sem eru algengustu flutningsmannvirkin á Íslandi) komu jafnframt vel út í samanburði við hefðbundin möstur hjá Statnett enda léttari burðarvirki og minna stál þarf til framleiðslu þeirra. Kolefnisspor M-masturs er nær helmingi minna en samanburðarmastrið. Þessi tegund mastra hentar ekki vel í fjalllendi en getur hentað vel víða í flatara landslagi, t.d. þar sem uppfæra þarf möstur.
Greiningin leiddi enfremur í ljós hvaða þættir það eru sem skipta verulegu máli í heildarumhverfisáhrifum hverrar mastrategundar. Hefur því Statnett nú haldbærar upplýsingar til að nýta ákvarðanatöku um gerð mastra í uppbyggingu flutningskerfisins í Noregi en einnig upplýsingar sem stefnt er á að nota við útboðsgagnagerð fyrir innkaup nýrra mastra.