Fréttir


Fréttir

Vel sótt EFLU-þing um hringrásarhagkerfi

Ráðstefna, Viðburður, DTU

4.11.2021

Húsfyllir var á EFLU-þingi, þann 28. október, þegar um 90 fulltrúar atvinnulífs og hins opinbera ræddu mikilvægi hringrásarhugsunar. Eftir ráðstefnuna var haldin vinnustofa með fræðimönnum frá DTU um sex áherslur í átt að hringrásarhagkerfi.

  • EFLU þing
    Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hélt opnunarerindi.

EFLU-þing eru haldin með það að markmiði að fræða og skapa grundvöll fyrir umræðu um samfélagsleg málefni. Hringrásarhugsun og sjálfbærni er EFLU afar hugleikið og skipar stóran þátt í stefnumörkun og ráðgjöf fyrirtækisins. Það var því afar ánægjulegt að geta blásið til EFLU-þings í höfuðstöðvum EFLU á Lynghálsi 4 í Reykjavík, á nýjan leik, eftir um tveggja ára hlé. Eva Yngvadóttir var fundarstjóri og kynnti inn áhugaverð erindi.

Samnorrænt verkefni um hringrásarhagkerfið

Viðburðurinn var lokahnykkur í norræna verkefninu Circit, sem EFLA er hluti af, en einnig kynning á framhaldsverkefninu CATALY(C)ST, þar sem sérstök áhersla er lögð á hringrásarhagkerfið og ungt fólk í atvinnulífinu. Meginmarkmið þessara norrænu verkefna er að styðja við iðnað og fyrirtæki við að innleiða hringrásarhagkerfið í sína starfsemi, annars vegar með fræðslu og miðlun á hagnýtum aðferðum og tólum og hins vegar með innleiðingu hringrásarhugsunar í framleiðslufyrirtækjum. Að verkefninu vinna Eva Yngvadóttir, Kjartan Due Nielssen og Lára Kristín Þorvaldsdóttir, fulltrúar EFLU.

SaemiSæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, bauð gesti velkomna.

Markmið Íslands um kolefnishlutleysi 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hélt opnunarerindi og fór yfir hvernig ólíkir þættir tengjast hringrásarhagkerfi og hversu mikilvæg breyting í átt að hringrásarhagkerfi er fyrir alla þætti umhverfismála, en Ísland hefur lögleitt markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Einnig minntist ráðherra á styrki til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi sem ráðuneytið veitir ár hvert. Þar fór hann einnig yfir stefnu stjórnvalda „Í átt að hringrásarhagkerfi“, sem kom út í júní á þessu ári.

Aðgerðir í átt að hringrásarhagkerfinu

Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs hjá EFLU, sagði frá núverandi stöðu í átt að hringrásarhagkerfinu og hugleiðingar um hvað þarf að gerast svo við náum settum markmiðum. Helga sagði frá því hvernig aðeins um 9% af hagkerfi heimsins er hringrásarhagkerfi og mikilvægi hringrásarhagkerfishugsunar, til þess að stuðla að því að lífshættir haldist í hendur við sjálfbæra neyslu. Aðgerðir til að styðja við hringrásarhagkerfið sem Helga nefndi voru sem dæmi breytingar í lagalegum kröfum og grænum fjárfestingum sem skapa hvata fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki og stofnanir þurfa fyrst að greina sína starfsemi og bæta ferli hjá sér með hringrásarhugsun í forgrunni.

EFLA og hringrásarhagkerfið | Helga J. Bjarnadóttir

EFLU-thing-7-Helga J. Bjarnadóttir, EFLU.

Reynslusaga við innleiðingu Össurar í hringrásarhugsun 

Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Global Sustainability & EHS Manager frá Össuri, sagði frá reynslu Össurar við innleiðingu hringrásarhagkerfis í starfseminni. Bergþóra sagði frá vegferð Össurar og þátttöku þeirra í verkefninu Circit sem fór fram á árunum 2018-2019. Þar lagði Össur áherslu á þrjá þætti; hringrás í vöruhönnun, hringrás í viðskiptalíkani og að koma úrgangi í hringrás. Mjög áhugaverður ávinningur Össurar vegna þátttöku í verkefninu tengdust þróun á pakkningar utan um vöruna PRO-FLEX© sem leiddi af sér minni efnanotkun, aukinnar endurvinnslu efna og léttari umbúða.

Össur og CIRCit | Bergþóra H. Skúladóttir

EFLU-thing-10-Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Össur. 

Samnorrænt verkefni til að hvetja og fræða ungt fólk í atvinnulífinu

Lára Kristín Þorvaldsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, sagði frá spennandi samnorrænu verkefni sem nú er í gangi, þar sem EFLA vinnur með fulltrúum innan norrænu háskólanna DTU, KTH, NTNU og Aalto. Meginmarkmiðið er að hvetja og fræða ungt fólk í atvinnulífinu og nemendur um hringrásarhagkerfið og leiðir til að innleiða hringrásarhagkerfi hjá fyrirtækjum. Tilgangurinn er að ná þekkingu inn til fyrirtækja og hraða atvinnulífinu í átt að hringrásarhagkerfi. Á næstu mánuðum mun EFLA bjóða fyrirtækjum upp á vinnustofur, með áherslu á að þjálfa ungt fólk til að nota þau tæki og tól sem síðan geta nýst innan fyrirtækjanna við greiningu á starfsemi fyrirtækja og skilgreina leiðir til að ná meiri hringrásarhugsun innan fyrirtækja.

EFLA og CATALYST | Lára K. Þorvaldsdóttir

EFLU-thing-13-Lára Kristín Þorvaldsdóttir, EFLU.

Ný viðskiptalíkön og endurhugsun aðfangakeðju

Tim C. McAloone og Daniela Pigossa, prófessorar frá DTU í fræðum hringrásarhagkerfis og sjálfbærrar hönnunar, sögðu frá mikilvægi innleiðingar hringrásarhagkerfis og tækifærum sem það skapar í norrænum iðnaði. Þau lögðu áherslu á að hringrásarhagkerfi snýst ekki aðeins um góða endurvinnslu, heldur ný viðskiptalíkön, betri vöruhönnun, nýtingu tækifæra í stafrænni þróun og endurhugsun aðfangakeðju fyrirtækja. Í verkefninu Circit, sem styrkt var af Nordic Green Growth, voru þessir þættir settir upp í sex áherslusvið. En Tim og Daniela kynntu þessar áherslur vel og ítarlega fyrir gesti vinnustofu sem haldin var í kjölfar ráðstefnunnar.

Iceland - Drivers and opportunities Nordic | Tim og Daniela

EFLU-thing-16-Daniela og Tim, DTU.

Pallborð

Í lok ráðstefnunnar voru líflegar pallborðsumræður sem Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir hjá EFLU stýrði. Þar sátu Helga J. Bjarnadóttir (EFLA), Rakel Kristjánsdóttir (Umhverfisstofnun), Jón Viggó Gunnarsson (SORPA), Alma Stefánsdóttir (Ungir Umhverfissinnar) og Jón Ásgeirsson (HS Orka) fyrir svörum. Umræðurnar sneru að því hvað þyrfti að gera til að skapa rétta umhverfið fyrir hringrásarhagkerfi og hvernig megi skapa hvata fyrir fyrirtæki. Áhugaverður punktar úr sal tengdust hvort skapa megi hringrásarklasa um samráð við innleiðingu hringrásarhagkerfis.

EFLU-thing-23-Frá pallborðsumræðum. Frá vinstri: Jón Ásgeirsson, Alma Stefánsdóttir,  Rakel Kristjánsdóttir, Helga J. Bjarnadóttir og Jón Viggó Gunnarsson.

Tækifæri á Íslandi rædd á vinnustofu

Á vinnustofu, sem fór fram eftir ráðstefnuna, var kynnt aðferðafræði sem kallast Circular Strategy Scanner, sem fyrirtæki geta nýtt til að skima sína starfsemi eða vöru m.t.t. hringrásarhugsunar, til þess að sjá hvaða breytingar eða skref fyrirtækið getur lagt áherslu á í sinni vegferð. Einnig voru kynnt raundæmi um vegferð fyrirtækja frá Norðurlöndunum sem höfðu breytt sinni starfsemi í gegnum verkefnið Circit. Þátttakendur vinnustofu röðuðust í hópa eftir áhuga þeirra á mismunandi áherslusviðum Circit og þar sköpuðust áhugaverðar umræður um hvaða tækifæri eru á Íslandi í hringrásarhagkerfinu og hvernig niðurstöður Circit geta stutt fyrirtæki í sinni vegferð.

Myndagallerí 

Vinnustofa á EFLU-þingi 2021Daniela talar við þátttakendur á vinnustofunni.

Vinnustofa á EFLU-þingi 2021

Vinnustofa á EFLU-þingi 2021

Vinnustofa á EFLU-þingi 2021

Við þökkum öllum gestum EFLU-þings, fyrirlesurum og þátttakendum í pallborði fyrir komuna. Það var ánægjulegt að sjá hvað margir sáu sér fært að mæta, og augljóst að hringrásarhugsun er mörgum ofarlega. EFLA hefur lýst yfir stuðningi við djarfar ákvarðanatökur þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum og hvetur til öflugs samstarfs milli yfirvalda og atvinnulífsins í átt að hringrásarhagkerfi.