Viðskiptavinaboð á Norðurlandi

12.03.2024

Fréttir
Fólk í boði inni í sal.

EFLA bauð viðskiptavinum og samstarfsaðilum í gleðskap í Ketilhúsinu á Akureyri í liðinni viku. Starfsfólk EFLU Norðurlandi var á svæðinu ásamt stórum hluta af framkvæmdastjórn fyrirtækisins, þ.á.m. svæðisstjórum, sviðsstjórum og framkvæmdastjóra.

Gestir og góðar veitingar

Fjölmargir gestir mættu á staðinn og nutu góðra veitinga. Þarna fékk fólk tækifæri til að ræða saman utan vinnu og fara yfir málin á léttum nótum.

Hjalti Már Bjarnason, svæðisstjóri EFLU á Norðurlandi, sagði í stuttum máli frá starfsemi fyrirtækisins á Norðurlandi og frá nokkrum verkefnum sem hafa verið unnin þar. Hjá EFLU Norðurlandi er starfsfólk um 30 talsins. Langflest starfa á starfsstöð fyrirtækisins á Glerárgötu á Akureyri, en einnig starfar fólk á Siglufirði, Húsavík og Mývatni.

Möguleikar orkuskipta

Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri orku hjá EFLU, hélt einnig stutt erindi sem fjallaði um orkuskiptin og möguleikana sem felast í þeim. Fólk fylgdist áhugasamt með og fjöldi gaf sig á tal við Birtu Kristínu að erindi hennar loknu til að fara nánar yfir málefnið og til að ræða hvernig mætti þróa fyrirtæki þeirra eða sveitarfélag í átt að orkuskiptum.

Starfsfólk EFLU þakkar gestum kærlega fyrir samveruna og samræðurnar.