Vinnustaðurinn er mjög skemmtilegur

06.01.2024

Fréttir
A young woman in graduation attire, standing on a balcony

Tinna útskrifaðist frá Southern University and A&M College í Louisiana í Bandaríkjunum vorið 2023.

„Síðan ég byrjaði hjá EFLU hef ég verið að sinna alls konar verkefnum og fengið dýrmæta reynslu á stuttum tíma,“ segir hin 24 ára Tinna Arnarsdóttir, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, sem var hluti af hópi sumarstarfsfólks EFLU sumarið 2023. Eftir sumarið var Tinna ráðin í fullt starf hjá fyrirtækinu og starfar nú hjá EFLU Norðurlandi.

Reynslan muni nýtast vel

Tinna fæddist í Reykjavík en flutti til Akureyrar þegar hún var ellefu ára gömul og starfar því á skrifstofu EFLU á Akureyri. Síðastliðið vor útskrifaðist hún með BS gráðu í byggingarverkfræði frá Southern University and A&M College í Louisiana í Bandaríkjunum.

„Mér gekk nokkuð vel að takast á við mín verkefni. Auðvitað var starfið krefjandi og allt öðruvísi en að leysa verkefni í skólanum en ég fékk góða leiðsögn frá reynslumiklum starfsmönnum í kringum mig,” segir Tinna um upplifun sína síðastliðið sumar. „Reynslan við að vinna hjá EFLU mun nýtast mér mjög vel og ég hef lært mikið á stuttum tíma.“

A single-story building with a long row of windows, situated on an exposed soil and rock foundation

Meðal verkefna Tinnu í sumar var að teikna ný útimannvirki við Glerárskóla á Akureyri.

Góðar móttökur

Tinna tókst á við fjölbreytt verkefni í sumar: „Ég fékk til dæmis að gera teikningar á burðarvirki, neysluvatni og lögnum fyrir lítið sumarhús en einnig tók ég þátt í stærra verkefnum eins og uppbyggingunni á KA svæðinu. Þá hannaði ég og teiknaði burðarvirki fyrir nýtt einbýlishús á Akureyri og teiknaði ný útimannvirki við Glerárskóla,” segir Tinna.

Auk þess að kunna vel við samstarfsfólkið hefur EFLA sem vinnustaður heillað hana. „Starfsfólkið hjá EFLU hefur tekið mjög vel á móti mér og eru alltaf tilbúin að aðstoða þegar að maður þarf á því að halda. Vinnustaðurinn er mjög skemmtilegur og nánast alltaf eitthvað gott í boði á kaffistofunni,“ útskýrir Tinna.

Hún stefnir á frekara nám eftir að hafa öðlast meiri reynslu hjá EFLU. „Þar sem ég var að klára grunnnámið mitt núna í vor þá stefni ég á að vinna í að minnsta kosti eitt ár. Seinna meir er ég að plana að fara í mastersnám og sækja um lögverndað starfsheiti sem verkfræðingur,” segir Tinna að lokum.

Sækja um sumarstarf árið 2024