Fréttir


Fréttir

Vísindagrein um sjálfbærnivísa

17.8.2016

Dr. Sigrún María Kristinsdóttir, starfsmaður á umhverfissviði EFLU, er einn af höfundum vísindagreinar sem birt var nýverið í alþjóðlega vísindatímaritinu "Agriculture, Ecosystems and Environment." Greinin nefnist "Soil indicators for sustainable development: A transdisciplinary approach for indicator development using expert stakeholders" og fjallar um niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Háskóla Íslands á sjálfbærnivísum fyrir jarðveg.
  • Sjálfbærnivísar

Vistkerfi jarðarinnar leggja grunninn að samfélagi mannanna og er heilbrigð virkni jarðvegs mikilvægur hluti af þeirri þjónustu sem vistkerfin veita. Sjálfbær nýting jarðvegs er eitt af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en erfitt getur reynst að ná slíkri nýtingu þar sem jarðvegur er afar mismunandi og sjálfbær nýting hans krefst samvinnu fjölda aðila á ýmsum stigum samfélagsins. Í þessari rannsókn var þverfaglegum aðferðum beitt til að velja, vega og meta ákveðna vísa sem nota má til að mæla sjálfbærni jarðvegs á afmörkuðum svæðum.

Sigrún María Kristinsdóttir og doktorsneminn Jón Örvar G. Jónsson, sem jafnframt er aðalhöfundur greinarinnar, unnu rannsóknina með svokallaðri Delphi aðferð sem byggir á tækni þar sem vísindamenn safna endurtekið saman eigindlegum og megindlegum gögnum frá mörgum sérfræðingum um sama efnið og vinna niðurstöðurnar jafnóðum út frá svörum þátttakenda. Aðferðin hefur kosti umfram hefðbundna rýnihópa hvað það varðar að þátttakendum er ekki kunnugt um aðra þátttakendur og því litast svör þeirra síður af skoðunum annarra.

Þátttakendur í þessari rannsókn komu úr röðum vísindamanna, opinberra starfsmanna sem hafa með jarðveg að gera og fólks sem vinnur beint með jarðveginn, svo sem bændur og fulltrúar ákveðinna fyrirtækja. Þátttakendur fengu þrisvar senda mismunandi rafræna spurningarlista, þar sem þeir voru beðnir um að leggja mat á 49 fyrirfram ákveðna vísa, sem hópur alþjóðlegra vísindamanna hafði valið á fyrri stigum rannsóknarinnar. Út frá því mati voru valdir þeir 30 vísar sem skoruðu hæst. Af þeim, voru allir hópar þátttakenda sammála um mikilvægi 14 vísa, og mynda þeir kjarnasett vísa sem saman má nota til að meta sjálfbærni jarðvegs. Sem dæmi um þessa 14 vísa má nefna þekkingu almennings á mikilvægi jarðvegs, jarðvegseyðingu, uppskeru mælda í tonnum, notkun skordýraáburðs og fjölda jarðvegstegunda innan ákveðins svæðis. Mælt er með því að nota heildarsafn vísanna 30 til að ná betri yfirsýn ef meta á sjálfbærni jarðvegs.

Rannsóknin sýnir mikilvægi þess að leita til breiðs hóps þátttakenda við þróun vísa af þessu tagi og kosti þess að nota spurningalista til að ná fram sem víðtækastri sátt um vísana. Mismunandi hópar hafa ólíkar þarfir í huga og með þessari aðferð er unnt að ná fram sameiginlegri sýn á hvað skiptir máli þegar kemur að því að meta sjálfbærni jarðvegs.

Aðrir höfundar greinarinnar eru Eydís Mary Jónsdóttir, land- og umhverfisfræðingur, ásamt dr. Brynhildi Davíðsdóttur og dr. Kristínu Völu Ragnarsdóttur, prófessurum við Háskóla Íslands. Rannsóknin var styrkt af Evrópusambandinu og féll undir SoilTrEC rannsóknina.

Grein um sjálfbærnisvísa