Ferðaþjónusta

Jafnvægisás ferðamála

Ferðamannaskýrsla, Ferðamál, Ferðamenn, Álagsmat

Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið ákvað árið 2017 að að ráðast í umfangsmikið verkefni þar sem lagt er mat á álag á íslenskt samfélag, efnahag, innviði og umhverfi vegna fjölda ferðamanna á Íslandi. 


Verkefninu var stýrt af Stjórnstöð ferðamála og EFLU. Greiningarvinna og skýrslugerð var í höndum EFLU í samstarfi við TRC Tourism (TRC) frá Nýja Sjálandi og Recreation and Tourism Science (RTS) frá Bandaríkjunum.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Verktími
2017-2019

Staðsetning
Ísland

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin ár og hefur fjölgað úr 500 þúsund frá árinu 2011 í um 2,3 milljónir árið 2018. Ferðaþjónustan er því orðin ein af meginstoðum atvinnulífsins þrátt fyrir sveiflur og samdrátt í vexti nýverið. Náttúrufegurð landsins er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna og mikilvægt að hugað sé vel að ástandi hennar og gæta að hóflegu álagi á vinsæla ferðamannastaði. Að sama skapi verður að huga að lykilinnviðum greinarinnar.

Verkefnið hófst haustið 2017 og var tilgangur þess að leggja mat á álag á innviði, umhverfi og samfélag með tilliti til fjölda ferðamanna, greina líklega þróun miðað við sviðsmyndir um aukningu ferðamanna og meta hvort grípa þurfi til aðgerða. Þessum upplýsingum er ætlað að vera grunnur að stefnumótun um sjálfbæra ferðaþjónustu hérlendis og forgangsröðun á aðgerðum hvað varðar stýringu, viðhald og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Verkefninu var skipt í tvo áfanga. 

Fyrsti áfangi. Álagsmat umhverfis, innviða og samfélags

Í fyrri áfanganum var unnið að þróun matskerfis með því að móta sett af sjálfbærnivísum (e:indicators) sem ætlað er að gefa yfirlit um álag á helstu snertifleti ferðamannsins við umhverfi, efnahag, samfélag og innviði. Við þróun matskerfisins var litið til erlendra fyrirmynda en tekið var tillit til staðbundinna aðstæðna og gagnaaðgengis hérlendis. Við vinnuna var haft samráð við fjölmarga sérfræðinga á vegum ráðuneyta, stofnana, samtaka og fyrirtækja á Íslandi. 

Fjórir vinnuhópar voru skipaðir úr breiðum hópi ráðgjafa og sérfræðinga frá stofnunum, ráðuneyti og atvinnulífi. Hver hópur hafði afmörkuð málefni til umfjöllunar:

 • Efnahagslegt jafnvægi - Innviðir og fjárfestingar: Helstu innviðaflokkar greindir, t.d. flugvellir, vegakerfið, veitur, gisting og náttúrustaðir.
 • Efnahagslegt jafnvægi - Þjóðhagslegar stærðir: Farið var yfir hagvöxt og gjaldeyristekjur, vinnumarkaðinn, afkomu í ferðaþjónustu og opinber fjármál.
 • Umhverfislegt jafnvægi: Umhverfisþættir þvert á flokka.
 • Félagslegt jafnvægi: Heilbrigðiskerfið, löggæsla, húsnæðis- og vinnumarkaður og félagsleg áhrif. 

Settir voru fram sextíu og einn sjálfbærnivísir sem saman hafa það hlutverk að meta heildstætt álag ferðamanna á umhverfi, samfélag og innviði. Lagt var mat á afkastagetu viðkomandi innviða, öryggi og umhverfisáhrif sem aukið álag af völdum ferðamanna kann að valda. 

Annar áfangi. Jafnvægisás ferðamála

Í öðrum áfanga verkefnisins voru vísarnir yfirfarnir og gildissettir og metið hvort þolmörkum sé náð eða líklegt sé að þeim verði náð í framtíðinni. Um er að ræða fyrstu niðurstöður álagsmats og lagt var mat á innviði, umhverfi og samfélag á Íslandi með tilliti til fjölda ferðamanna og lagt mat á hvort grípa þurfi til aðgerða. 

Eftirfarandi þættir voru kannaðir:

 • Hver eru þolmörk lykilþátta í undirstöðu ferðaþjónustu á Íslandi.
 • Hvert er ástand þessara lykilþátta í dag og fyrirhugað ástand í framtíðinni.
 • Hversu auðvelt og tímafrekt er að grípa til úrbóta á lykilþáttum innviða.
 • Hversu fjárfrekar eru úrbætur lykilþátta innviða.

Mikil áhersla var á að nýta fyrirliggjandi gögn og meta ástand vísa fyrir allt landið í heild en ekki einstaka staði eða svæði. Núverandi ástand sjálfbærnivísanna var metið með tilliti til þolmarka sem ákveðin voru fyrir hvern vísi.

 1. Yfir þolmörkum: Þar sem ástand vísis er talið vera orðið það slæmt að grípa þurfi til aðgerða ef frekari hnignun á ekki að eiga sér stað
 2. Farið að nálgast þolmörk: Þar sem ástand vísis er ekki gott og huga þarf að aðgerðum til að bæta ástand hans
 3. Undir þolmörkum: Ástand vísis er metið gott og ekki talin þörf fyrir sérstakar aðgerðir.

Auk þess að leggja mat á núverandi ástand var tveimur sviðsmyndum um mögulega framtíðarfjölgun ferðamanna stillt upp. Í sviðsmyndunum var annars vegar reiknað með að árleg fjölgun ferðamanna til 2030 yrði 2% en hins vegar 5% og var ástand sjálfbærnivísanna metið m.t.t. þessara sviðsmynda.

Umhverfismál

Niðurstaða verkefnisins er yfirlit yfir ástand lykilinnviða, efnahags, samfélags- og umhverfislegra þátta, og hvar úrbóta er þörf við núverandi ástand og til ársins 2030. Við núverandi ástand er þegar orðið aðkallandi að huga að málum er varða umhverfismál, þ.e. fráveitur, urðun úrgangs og kolefnisspor ferðamála. Ef ekki er ráðist í frekari aðgerðir er talið líklegt að það sama muni eiga við um vegakerfið, heilbrigðisþjónustu og löggæslu og álagsstýringu og stjórnun á náttúrstöðum. 

Hlutverk EFLU

EFLA sá um verkefnisstjórnun í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála, utanumhald verkhópa og samráð, greiningarvinnu og skýrslugerð.

"Við ætlum að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Við ætlum að hafa samkeppnishæfni að leiðarljósi og starfa í sátt við land og þjóð. Við ætlum að setja arðsemi framar fjölda ferðamanna, vinna að ávinningi heimamanna um allt land, gæta jafnvægis milli verndar og nýtingar og miða að einstakri upplifun, gæðum og fagmennsku. Það er mikilvægur áfangi að allir helstu hagsmunaaðilar séu sammála um þessa framtíðarsýn og þessi leiðarljós. Jafnvægisásinn tryggir að við munum beina kröftum okkar í rétta átt til að ná settu marki."

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Ávinningur verkefnis

Jafnvægisás ferðamála er verkfæri sem nýtist við ákvarðanatöku vegna álagsstýringar. Þar er horft til gildissettra sjálfbærnivísa í þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi og sjálfbærri þróun íslenskrar ferðaþjónustu til lengri tíma. 

Tilgangur Jafnvægisáss ferðamála er að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Jafnvægisásinn myndar, ásamt Framtíðarsýn og leiðarljósi, ný stjórntæki í ferðamálum sem hugsuð eru sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem er framundan.


Var efnið hjálplegt? Nei