Umhverfi

Uppruni svifryks í Reykjavík

Rannsóknarverkefni

EFLA vann verkefni þar sem uppruni svifryks í Reykjavík var kannað. Um var að ræða rannsóknarverkefni sem styrkt var af rannsóknar­sjóði Vegagerðarinnar þar sem hlutfall einstakra uppsprettuefna í svifryki voru metin. 


Svifryki minna en 10 µm að stærð (PM10) var safnað á síur með sérstökum svifrykssafnara sem er staðsettur á þaki loftgæða­stöðvarinnar við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Vegagerðin

Verktími
Vorið 2015

Staðsetning
Reykjavík

Tengiliður

Um hvað snýst verkefnið

Frá miðjum mars og fram í byrjun maí 2015 voru tekin svifrykssýni við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar til að meta samsetningu svifryksins. Svifrykssýnum (grófu svifryki PM10) var safnað á kvarssíur með sérstökum svifrykssafnara. Ryksýnin voru síðan efnagreind með plasma-massagreini og fjölbreytulíkan var útbúið til að rekja uppruna svifrykssins. Til að fá viðmiðunargildi var safnað ryki af ætluðum uppsprettum á sams konar síur og með sama ryksafnara þannig að uppsprettusýnin og raunverulegu ryksýnin fengu sömu meðhöndlun. 

Eftirfarandi niðurstöður fengust  

  • Malbik 48.8%
  • Sót 31,2%
  • Jarðvegur 7,7%
  • Bremsur 1,6% 
  • Salt 3,9%
  • Annað svifryk 6,8%

Stór hluti eða yfir 80% af svifrykinu stafar af bílaumferð. Í samanburði við mælingar sem gerðar voru árin 2003 og 2013 mátti sjá að eldfjallaaska var ekki lengur til staðar en hún hafði mælst í töluverðu magni 2013. Hlutfall jarðvegs fer minnkandi sem helst í hendur við lítil umsvif byggingarframkvæmda á höfuð­borgarsvæðinu á þessum tíma. Hlutfall malbiks mældist 48,8% og er stærsti hluti svifryksins. Þetta er nokkur aukning frá mælingunni sem gerð var 2013 og er aðeins minna heldur en mældingin frá 2003. 

Erfitt er að segja nákvæmlega hvað veldur þessum mismun í niðurstöðum. Líklegasta skýringin er að veðuraðstæður spili þarna inn í, en gera má ráð fyrir að blautviðri dragi mikið úr svifryksmyndun frá malbiki. Aðrir áhrifaþættir eins og umferðarþungi, nagladekkjanotkun og malbiksgerðir hafa ekki breyst mikið frá 2013. 

Hvað er til ráða?

Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til að draga úr svifryksmengun frá malbiki, eins og minni notkun nagladekkja og slitþolnara malbik, þá er hlutfall þess að mælast nokkuð hátt. Full ástæða er til að leita áfram leiða til að takmarka malbiksslit þar sem malbik inniheldur mörg heilsuspillandi efni. Einnig er áberandi hátt hlutfall sóts sem mældis svipað og árið 2013 en mun lægra árið 2003. 

Niðurstöðurnar styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hafi vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar bílaumferðar og hækkandi hlutfalls díselbíla. Vegna þess hversu hlutfall sóts er að mælast hátt og vegna neikvæðra heilsufarsáhrifa þess er ástæða til að rannsaka þennan mengunarþátt nánar og skoða leiðir til að draga úr sótmengun t.d. með takmörkun á umferð díselbíla sem uppfylla ekki ákveðin útblástursskilyrði.

Umhverfismál

Svifryk er sá mengunarþáttur í borgum sem hefur hvað mest áhrif á heilsu almennings. Stöðugt er leitað leiða til að takmarka svifryks· mengun og er öll vitneskja um eiginleika og samsetningu svifryksins gagnleg við þá vinnu.

Hlutverk EFLU

EFLA hafði yfirumsjón með þessu verkefni og sá m.a. um sýnatöku, úrvinnslu og túlkun niðurstaðna. 

Efnagreiningar og líkangerð var unnin af Arngrími Thorlacius hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ávinningur verkefnis

Vegna skaðsemi svifryks fyrir heilsu fólks er unnið markvist að því draga úr myndun þess en þekking á samsetningu og uppruna ryksins er mikilvæg í þeirri vinnu.

Svifryk í ReykjavíkLoftgæðastöðin við Miklubraut og GrensásvegVar efnið hjálplegt? Nei