picture of a salmon in styrofoam box

Umhverfisyfirlýsingar fyrir frauðplastvörur

HafnarfjörðurSjálfbærni og umhverfi

EFLA útbjó umhverfisyfirlýsingar (Environmental Product Declaration, EPD) fyrir frauðplastvörur sem eru framleiddar af Tempra ehf. í Hafnarfirði. Undanfari slíkra yfirlýsinga er vistferilsgreining sem notuð er til að meta umhverfisáhrif vöru.

Viðskiptavinur
  • Tempra ehf.
Verktími
  • 2022 - 2024
Þjónustuþættir
  • Vistferilsgreiningar og umhverfisyfirlýsingar

Um hvað snýst verkefnið

Umhverfisáhrif voru reiknuð fyrir umbúðir fyrir ferskfiskútflutning og einangrun fyrir byggingariðnað með mismunandi rúmþyngdir (16, 24 og 30 kg/m3) úr EPS. Fyrir útgáfu umhverfisyfirlýsinga er reglum fyrir viðeigandi vöruflokk fylgt eftir ásamt ítarlegum stöðlum sem innihalda kröfur og leiðbeiningar fyrir gerð vistferilsgreininga. Slíkar yfirlýsingar eru vottaðar af óháðum þriðja aðila sem hefur djúpa LCA sérfræðiþekkingu og nauðsynlega hæfni.

Vistferilsgreiningin náði yfir vinnslu og flutninga hráefna, framleiðslu, flutninga að verkstað, notkun og förgun. Umhverfisáhrif voru reiknuð fyrir nítján umhverfisáhrifaflokka, s.s. gróðurhúsaáhrif, eyðingu auðlinda, súrnun vatns og lands, næringarefnaauðgun og myndun ósóns við yfirborð jarðar. Niðurstöður greiningarinnar sýndu hvar stærstu tækifærin liggja til að draga úr umhverfisáhrifum varanna.

picture of plates of styrofoam

EFLA gerði umhverfisyfirlýsingar fyrir umbúðir fyrir ferskfiskútflutning og einangrun fyrir byggingariðnað.

Hlutverk EFLU

  • Vistferilsgreining framkvæmd
  • Umhverfisáhrif skilgreind
  • Kolefnisspor umbúða og EPS einangrunar reiknað út
  • Gerð umhverfisyfirlýsingar og gangast undir vottunarferli

Útgáfa umhverfisyfirlýsingar og ávinningur

Upplýsingarnar sem koma fram í EPD blöðum frauðplastvaranna veita viðskiptavinum Tempra og almenningi gagnsæjar, samanburðarhæfar og áreiðanlegar upplýsingar um umhverfisáhrif þeirra. Vistferilsgreininguna er hægt að nýta sem verkfæri til ákvarðanatöku um aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum. EFLA hefur framkvæmt vistferilsgreiningar og kolefnissporsútreikninga um árabil og var ráðgefandi þegar fyrsta umhverfisyfirlýsing íslenskrar framleiðslu var gefin út, fyrir Steinull.

Umhverfisyfirlýsingar

Viltu vita meira?