Líkan af vindmylla á hálendi.

Vindlundir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu

RangárþingOrka

EFLA vann frum- og verkhönnun og fýsileikagreiningu fyrir vindlund á nokkrum mögulegum svæðum á Hafinu, hraunsléttunni ofan við Búrfell.

Viðskiptavinur
  • Landsvirkjun
Verktími
  • 2013 - 2016
Þjónustuþættir
  • Áhættustjórnun og áhættugreiningar
  • Deiliskipulag
  • Framkvæmdaáætlanir
  • Hönnun dreifikerfa raforku
  • Jarðtæknirannsóknir
  • Kostnaðar- og tímaáætlanir
  • Mat á rekstrartruflunum í raforkukerfum
  • Mat á umhverfisáhrifum
  • Rannsóknir og þróun
  • Skipulagsmál
  • Steypurannsóknir
  • Umhverfisvöktun

Um hvað snýst verkefnið

EFLA vann ýmsar rannsóknir vegna verkefnisins og kom að mati á umhverfisáhrifum og rammaáætlun með því að leggja til ýmis gögn í þá vinnu.

Meginmarkmið verkefnisins var að rannsaka hvort Þjórsár- og Tungnaársvæðið sé raunhæfur og hagkvæmur virkjunarstaður fyrir vindorku og tryggja að Landsvirkjun geti stuðst við ítarlegar greiningar og gögn við ákvarðanir um uppbyggingu vindorku sem þriðju stoðarinnar í raforkukerfinu.

Þetta var gert m.a. með því að:

  • Meta vindorkugetu svæðisins með ítarlegum vindmælingum og hermunum
  • Skoða ólíkar tillögur varðandi stærð og staðsetningu vindlunda til að meta kostnað og finna hagkvæmustu niðurstöðuna
  • Framkvæma þær rannsóknir og undirbúningsvinnu sem nauðsynlegt var til að frum- og verkhanna þessar tillögur
  • Meta mögulegan virðisauka vindlundar fyrir raforkukerfið í heild og tækifærin sem felast í samspili vind- og vatnsorku
  • Vinna að mati á umhverfisáhrifum
  • Rýna lagaumgjörð og reglur, bæði þær sem eru til staðar og vinna að mótun reglna þar sem þeirra nýtur ekki við
  • Vinna deiliskipulag fyrir svæðið

Verkefnið er fyrsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi og aldrei fyrr hefur verið skoðaður vindlundur af þessari stærð né áhrif hans á samfélag og raforkukerfið.

Hlutverk EFLU snéri að frum- og verkhönnun nokkurra mismunandi svæða á Hafinu og var unnið samhliða mati á umhverfisáhrifum. Auk þess voru undirbúin ýmis gögn fyrir 3. áfanga rammaáætlunar.

Hverjar voru helstu áskoranir verkefnisins?

Helsta áskorunin fólst í fjölda hagsmunaaðila og ólíkum hagsmunum þeirra. Því var gerð mjög viðamikil áhættugreining og hagsmunaðilagreining á verkefninu sem og drög að samskiptaáætlun. Reynt var að hitta sem flesta hagsmunaaðila og kynna tímanlega verkefnið fyrir þeim og fá fram þeirra sjónarmið.

Mikil áskorun fólst í þeirri staðreynd að regluverk um vindlundi er bæði óljóst og því ábótavant á Íslandi. Lagaumgjörð og reglur voru því kortlögð og tengd áhætta greind. Þá varð að þróa verkefnið m.t.t. skipulagsmála svæðisins. Til viðbótar var gerð áhættugreining á undirbúningi og hönnun allra verkþátta verkefnisins.

Ýmsar áskoranir fylgdu mannvirkjahönnun verkefnisins. Þær helstu voru að vindlundurinn er staðsettur ofan á jarðlagasniði sem samanstendur af misþykkum malar- og hraunlögum. Nauðsynlegt var því að kanna vel þessi jarðlög með borunum.

Hafið er í útjaðri sunnlenska jarðskjálftabeltisins og því geta komið nokkuð stórir jarðskjálftar á svæðinu. Uppbygging jarðlaga undir vindmyllunum getur einnig haft mikil áhrif á jarðskjálftaálag á vindmyllurnar. Því var ráðist í mjög viðamikla jarðskjálftarannsókn sem framkvæmd var af Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Niðurstöður gefa til kynna að jarðskjálftaálag geti magnast töluvert vegna uppbyggingar jarðlagastaflans og mögulega orðið ráðandi í hönnun undirstaða og turns.

Áðurgreindar áskoranir í þessu verkefni voru í senn virkilega krefjandi en á sama tíma spennandi og áhugaverðar viðfangs. Dýrmæt reynsla hlaust við vinnu þessara verkþátta og þá sérstaklega í tengslum við mannvirkjahönnun, umhverfis- og skipulagsmál þar sem reynsla og þekking er takmörkuð hérlendis.

Umhverfismál

Stefna Landsvirkjunar er að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðla að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Fyrirtækið leggur því mikla áherslu á að rannsaka og þekkja sem best umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim.

Í þessu verkefni var ofangreind stefna höfð að leiðarljósi í allri ráðgjöf og hönnun. Að auki var stefnu EFLU um umhverfi og öryggi fylgt í einu og öllu.

Ýmis gögn og niðurstöður sem unnin voru í frumhönnun EFLU, nýttust við mat á umhverfisáhrifum og í rammaáætlun, þá sér í lagi gögn tengd samfélagi og ferðamennsku, hljóðvist, sýnileika, ásýnd og skuggaflökti. Auk þess nýttust ýmsar upplýsingar úr jarðfræði- og byggingarefnisrannsóknum sem og samantekt á náttúruvá.

Leitast var við að finna leiðir til að lágmarka kolefnisspor framkvæmdarinnar og var m.a. að frumkvæði EFLU, athuga hvort mætti nota svokallaða „græna“ steypu í undirstöður undir vindmyllurnar. Það verkefni var unnið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Hlutverk EFLU

  • Frumhönnun/verkhönnun og bestun á stærð og uppröðun vindlundar innan skilgreinds svæðis
  • Mat á orkugetu vindlunda á svæðinu út frá hermunum og greiningu á raungögnum (mældum veðurgögnum)
  • Rannsókn svæðisins fyrir ólíkar stærðir vindlundar með áherslu á framkvæmd og rekstur, sem og samfélagslega þætti og umhverfisþætti
  • Gerð áhættugreiningar og áhættuskrár sem og gerð hagsmunaaðilagreiningar
  • Uppfærsla á loftmyndum og gerð nákvæms hæðarlínugrunns
  • Jarðfræðirannsóknir og boranir til að kortleggja jarðlagastafla svæðisins
  • Byggingarefnisrannsóknir
  • Gerð jarðfræðiskýrslu og námuefnaskýrslu
  • Steypuefnarannsóknir og skýrslugerð og þar með talið aðstoð við skoðun á „grænni“ steypu
  • Skoðun og frumhönnun á safnkerfi raforku innan svæðis og tengingar við raforkukerfið
  • Hönnun undirstaða, vega og reisingarplana
  • Samantekt og skoðun á helstu náttúruvá, m.a. á ísingu, vindálagi, öskuálagi, mögulegum eldgosum, flóðum og jarðskjálftum.
  • Aðstoð við gerð sértæka rannsókn á jarðskjálftaálagi
  • Samantekt á helstu álags- og hönnunarforsendum
  • Gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar
  • Skipulagsmál og umhverfismál
  • Gerð deiliskipulags
  • Samantekt á gögnum fyrir mat á umhverfisáhrifum og rammaáætlun hvað varðar hljóðvist, skuggaflökt, sýnileika, uppröðun vindmylla, tengingu við dreifikerfi, safnstöðvar, vegslóða og aðra innviði

Ávinningur verkefnis

Þar sem verkefnið er fyrsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi er helsti ávinningur þess sú reynsla sem verkkaupi, ráðgjafar og aðrir hagsmunaaðilar öðluðust í tengslum við verkefnið.

Möguleg hagnýting vindorku og áhrif hennar á umhverfi og samfélag er nú mun betur þekkt og mun reynslan úr þessu verkefni nýtast í sambærilegum framtíðarverkefnum.

Viltu vita meira?