Aðalskipulag Rangárþings ytra

01.10.2018

Fréttir
Green landscape with flat-topped mountain in the distance

Búrfell við Þjórsárdal.

Rangárþing ytra hefur unnið að endurskoðun aðalskipulags fyrir tímabilið 2016-2028 og hefur EFLA verið ráðgjafi sveitarfélagsins í þeirri vinnu.

Um er að ræða annað sameiginlega aðalskipulag sveitarfélaganna Djúpárhrepps, Holta- og Landsveitar og Rangárvallahrepps sem sameinuðust árið 2002. Megin landnotkun í sveitarfélaginu er hefðbundinn landbúnaður og er búskapur með sauðfé og kýr algengur. Þá hefur landnýting vegna ferðamennsku og afþreyingar farið ört vaxandi. Óbyggð svæði eru jafnframt við hálendisjaðarinn, vatnsból og víðfeðm landgræðslusvæði.

Stefna til framtíðar

Fjölmargir þættir kölluðu á endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins til að marka skýrari stefnu sveitarstjórnar um landnotkun til framtíðar. Tekin eru frá svæði fyrir samgöngu- og þjónustukerfi, veitur, íbúðabyggð, sumarhúsabyggð, ýmiss konar atvinnusvæði t.d. í tengslum við ferðaþjónustu, verndar­svæði o.fl.

Margra ára reynsla

Skipulagsráðgjafar hjá EFLU eru að vinna að þriðju kynslóð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið og hafa starfsmenn margra ára reynslu í gerð aðalskipulags samkvæmt skipulagslögum.

Kallað eftir athugasemdum

Sveitarstjórnin hefur samþykkt að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Rangárþings ytra skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagstillagan er aðgengileg rafrænt á vefsíðu sveitarfélagsins. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna og er frestur til að skila inn skriflegum athugasemdum eða með tölvupósti til 7. nóvember 2018.

View of a waterwall in a lush green setting