Dýrafjarðargöng opnuð

25.10.2020

Fréttir
A line of cars on a road besides a misty mountain and a lake

Löng bílaröð myndaðist þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð.

Dýrafjarðargöng voru opnuð sunnudaginn 25. október með óvenjulegu sniði í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. EFLA í samstarfi við Geotek, sá um verkumsjón og eftirlit með framkvæmdinni, ásamt Tækniþjónustu Vestfjarða og Pólnum frá Ísafirði.

Opnun Dýrafjarðarganga var með óhefðbundnum hætti þar sem samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, opnaði göngin símleiðis frá höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Reykjavík. Það voru nemendur Grunnskólans á Þingeyri, ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni, sem óku fyrst í gegnum göngin frá Dýrafirði, en Gunnar hefur mokað Hrafnseyrarheiði frá 1974.

Mikil samgöngubót

Dýrafjarðargöng eru 5,6 km löng (5,3 km í bergi og 300 m í vegskálum) og með tilkomu þeirra styttist Vestfjarðavegur (60) um 27,4 km og að auki mun vegurinn yfir Hrafnseyrarheiði leggjast af en hann hefur verið mikil farartálmi yfir vetrarmánuðina vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu. Þar með leysist Arnarfjörður úr vetrareinangrun að norðanverðu, en nú eru einnig hafnar undirbúningsframkvæmdir á Dynjandisheiði að sunnanverðu. Með þeirri framkvæmd verða heilsársamgöngur á milli sunnanverðra og norðanverða Vestfjarða mögulegar.

Verkumsjón og eftirlit

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust 14. september 2017 þegar fyrsta formlega skotið var sprengt í göngunum. Sem fyrr segir sinnti EFLA eftirliti og verkumsjón með framkvæmdunum í samstarfi við Geotek, Tækniþjónustu Vestfjarða og Pólnum frá Ísafirði. Aðalverktakar við gerð Dýrafjarðarganga voru Metrostav AS og Suðurverk hf. Undirverktakar þeirra voru; Vestfirskir verktakar ehf., sem sáu um brúargerð á Hófsá og Mjólká, Rafskaut ehf., sem sáu um raflagnir og Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas sá um malbikun. Rafeyri sá um stjórnkerfi ganganna.

EFLA óskar Vestfirðingum hjartanlega til hamingju með nýju jarðgöngin.

Myndagallerí