EFLA verður á ráðstefnunni „Sustainble District Energy Conference“ sem fer fram 23.-25. október. Ráðstefnunni er ætlað að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum.
Það er fagnaðarefni að alþjóðlegur viðburður sem þessi sé haldinn hér á landi enda eiga íslenskar hitaveitur stóran þátt í árangri Íslands í orkuskiptunum. Um 200-300 þátttakendur víðsvegar að úr heiminum eru á ráðstefnunni sem er haldin á Hilton Reykjavik Nordica. Að ráðstefnunni standa Samorka og Iceland Geothermal og tekur EFLA virkan þátt í viðburðinum með því að vera með kynningarbás á staðnum ásamt því að tveir starfsmenn flytja erindi.
Lágvarmavirkjun á Flúðum
Egill Maron Þorbergsson, orkuverkfræðingur hjá EFLU, heldur erindi á ráðstefnunni sem fjallar um aðkomu EFLU að hönnun lágvarmavirkjunar á Flúðum þar sem lághiti er nýttur við rafmagnsframleiðslu. Virkjunin sem tók til starfa fyrir um ári síðan er staðsett við Kópsvatn á Flúðum nýtir jarðhita með nýrri tækni, sem byggist á tvívökva tækni. Í því er jarðhitavatnið notað til að eima vinnuvökva sem er inn í einingunum. Vinnuvökvinn fer í gegnum hverfil sem knýr rafal sem býr til rafmagn. Tækni við tvívökvavirkjun er þekkt en nýjar framleiðslueiningar sem eru notaðar ná hærri nýtni úr lághita en hefur sést áður. Áður fyrr var talið óhagkvæmt að framleiða rafmagn úr lágvarma á Íslandi vegna lágs orkuverðs. Með þessum hætti er því bæði verið auka notkunargildi jarðhitasvæða og minnka sóun með því að nýta jarðvarma sem hefur áður fyrr verið talið óhagkvæmt að nýta. Sjá einnig frétt.
Kolefnisspor bygginga og raforku- og heitavatnsnotkun í rekstri
Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, flytur erindi um kolefnisspor bygginga og hlutdeild heitavatnsnotkunar og raforkunotkunar. Þar sem öll orka á Íslandi er nær eingöngu unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum með lágu kolefnisspori hefur sjónum einkum verið beint að kolefnisspori byggingarefnanna frekar en að orkunotkuninni líkt og gjarnan er lögð áhersla á erlendis. Hlutdeild raforkunotkunar og húshitunar er engu að síður verulegur hluti af kolefnisspori bygginga yfir líftímann og er losunin háð bæði notkun og eðli þeirra jarðhitasvæða sem nýtt eru til orkuvinnslu. Verið er að rannsaka og afla upplýsinga um umhverfisáhrif jarðhitanýtingar háhitasvæða á Íslandi með aðferðafræði vistferilsgreininga, en enn vantar upp á rannsóknir á nýtingu lághitasvæða til að meta megi mikilvægustu losunarþættina og hlutdeild þeirra í samhengi við kolefnisspor bygginga.