Eru Vatnsdalshólarnir óteljandi?

02.10.2018

Fréttir
Rugged landscape with moss covered volcanic mounds in the foreground

EFLA flaug dróna yfir svæðið og verður sérhæfður landupplýsingahugbúnaður notaður til að telja hólana.

Flestir landsmenn hafa eflaust keyrt fram hjá hinum fjölmörgu Vatnsdalshólum í Austur-Húnavatnssýslu sem til þessa hafa verið álitnir meðal þriggja óteljandi náttúrufyrirbæra á Íslandi. EFLU lék forvitni á að vita hvort hægt væri að nota tæknina til að telja Vatnsdalshóla.

Eru Vatnsdalshólarnir óteljandi?

Með nýjustu tækni og greiningarmöguleikum í landupplýsingaforritum var því ákveðið að ráðast í verkefnið og athuga hvort það væri gerlegt að telja hólana. „Með nýjustu tækni er unnt að telja hólana en stærsta áskorunin er að skilgreina hvað er hóll. Það eru nefnilega ekki til skilgreiningar eða hæðarviðmið á hugtökunum þúfa, hóll, hryggur, fell eða fjall. Þegar sú skilgreining liggur fyrir þá er hægt að keyra greiningar og reikna hvað hólarnir eru margir. Í allri okkar greiningarvinnu verðum við að vera með ákveðnar forsendur til þess að geta unnið úr gögnunum.“ segir Hjörtur Örn Arnarson, landfræðingur hjá EFLU.

Aðferð EFLU

Landsvæði Vatnsdalshóla er um fjórir ferkílómetrar að stærð og var dróna útbúnum öflugri myndavél flogið yfir allt svæðið. Með drónanum var unnt að taka myndir og safna gögnum sem nýtt eru til gerðar á þrívíðu hæðarlíkani. Sérhæfður landupplýsingahugbúnaður var síðan notaður til að telja hólana í líkaninu samkvæmt þeirri skilgreiningu á hól sem valin verður.

Landinn gerir efnistökum skil

Þáttagerðarmenn frá Landanum á RÚV voru áhugasamir um verkefnið og slógust í för með EFLU þegar drónaflugið og landmælingarnar fóru fram. Áhugasamir geta kíkt á Landann á vefsíðu RÚV, innslagið hefst á mínútu 8:48.

Tengdar fréttir

Vilt þú giska á fjölda Vatnsdalshóla?

Niðurstöður talningar á Vatnsdalshólum