Finnafjarðarverkefnið kynnt á ráðstefnu í Skotlandi

27.11.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Í síðustu viku fór fram ráðstefna í Edinborg um þátttöku Skotlands í þróun Norðurslóða, en Arctic Circle – Hringborð Norðurslóða hélt ráðstefnuna í samvinnu við ríkisstjórn Skotlands. Hafsteinn Helgason hjá EFLU flutti þar erindi um Finnafjarðarverkefnið.

Finnafjarðarverkefnið kynnt á ráðstefnu í Skotlandi

Markmið ráðstefnunnar var að ræða aukið samstarf Skotlands og Íslands, Færeyja og Grænlands með tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða á heimsvísu. Fjallað var meðal annars um flugsamgöngur, vöruflutninga á sjó, sjávarauðlindir og nýtingu hafsins, ferðaþjónustu og orkumál.

Nýir og spennandi möguleikar fyrir hendi

Fjölmargir Íslendingar voru viðstaddir ráðstefnuna, ráðamenn og forsvarsmenn fyrirtækja. Þar á meðal var Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá EFLU, og hélt hann erindi um mögulega iðnaðaruppbyggingu á um 1300 ha iðnaðar- og hafnarsvæði í Finnafirði í Langanesbyggð. Þar á meðal fjallaði Hafsteinn um tækifæri til vetnisframleiðslu og framleiðslu á ammóníaki til útflutnings.

Einnig ræddi hann um hversu hagstæðar aðstæður séu fyrir hendi á landi í Finnafirði til að byggja þar upp fiskeldi. Með slíku fyrirkomulagi mætti útiloka ýmis vandamál og álitamál hefðbundins fiskeldis. Í erindinu var einnig vikið að líklegum möguleika á að byggja upp flugvöll með langar flugbrautir á iðnaðarsvæði Finnafjarðar. Mögulega gæti slíkur flugvöllur risið í framtíðinni og sinnt fyrst og fremst vöruflutningum milli Asíu, Evrópu og Norður Ameríku.

Umtalsverður ávinningur

Með minnkun ísflatarins á Norður heimskautinu skapast tækifæri til að sigla óhindrað um svæðið allt árið um kring og gætu því siglingaleiðir milli Evrópu og Asíu styst umtalsvert. Framkvæmdar hafa verið rannsóknir á Finnafjarðarsvæðinu og jarðvegsathuganir, landmælingar, umhverfismál og rekstrarforsendur hafa verið skoðaðar. Þær athuganir benda sterklega til kynna að ávinningurinn af Finnafjarðarhöfn sé umtalsverður og getur skapað aukin tækifæri fyrir hagsmuna- og rekstraraðila.

Lars Stemmler, yfirmaður erlendra verkefna hjá Bremenport, fjallaði um ofangreind atriði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni. En Bremenport er erlendur samstarfsaðili EFLU, ásamt sveitarfélögunum Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi, um þróunarverkefnið hvað varðar uppbyggingu í Finnafirði.

Finnafjörður Cargo Hub - Glærur | Hafsteinn Hafsteinsson