Fulltrúi frá EFLU á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna

11.07.2019

Fréttir
A man presenting and pointing at the slide behind him

Sigurður Loftur Thorlacius tekur þátt í HLPF fundi Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin. Á myndinni má sjá Sigurð flytja erindi á loftslagsfundi í Hörpu sem fór fram síðastliðinn vetur.

Staða Íslands gagnvart innleiðingu heimsmarkmiða verður kynnt á ráðherrafundi hjá Sameinuðu þjóðunum sem fer fram í New York í næstu viku. Sigurður Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, verður einn af fulltrúum íslenskra ungmenna á ráðstefnunni.

Um er að ræða árlegan fund sem kallast High Level Political Forum on Sustainable Development (HLPF) og koma saman ríki heimsins, fyrirtæki, félagasamtök og fræðimenn til að fjalla um stöðu heimsmarkmiðanna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnir stöðu Íslands varðandi innleiðingu þeirra.

Ungt fólk í forgrunni á hliðarviðburði

Samhliða fundinum fara fram tveir hliðarviðburðir og er annar þeirra í nafni Íslands og Norrænu ráðherranefndarinndar. Þar verða í pallborði ungmenni, auk ráðherra, og verða málefni ungs fólks, loftslagsaðgerðir og lýðræði í brennidepli. Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, fékk boð um að taka þátt í hliðarviðburðinum fyrir hönd Íslands. Sigurður hefur tekið virkan þátt í umræðunni um umhverfismál, er í stjórn Ungra umhverfissinna og tekur þátt í skipulagningu loftslagsmótmæla ungs fólks á föstudögum. Þá hefur Sigurður í starfi sínu hjá EFLU fengið að vinna að nýsköpun tengdri umhverfis- og loftslagsmálum og var einn af þeim sem unnu að þróun og gerð matarreiknis sem sýnir kolefnisspor máltíða.

Hjá EFLU er lögð mikil áhersla á nýsköpun og þróun í tengslum við umhverfismál og hjá fyrirtækinu er mikil þekking á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar um ráðherrafundinn sem fer fram 16. júlí næstkomandi.