Gegnumbrot í Dýrafjarðargöngum

26.04.2019

Fréttir
A work crew gathered in a large rocky cave or tunnel entrance

Gegnumbrot Dýrafjarðarganga var 17. apríl 2019.

Í síðustu viku var síðasta haftið í Dýrafjarðargöngum sprengt og þar með lauk greftri ganganna. Næst hefst vinna við lokastyrkingu í göngunum og vegagerð. EFLA ásamt Geotek er eftirlitsaðili með framkvæmdunum.

Gegnumbrot í Dýrafjarðargöngum

Af þessum tímamótum var hátíðardagskrá á staðnum og gestir heimsóttu vinnusvæðið í göngunum þar sem flutt voru ávörp, karlakórinn Ernir söng lög og kaffiveitingar voru á boðstólnum. Það voru síðan þeir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, og Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, sem sprengdu síðustu sprenginguna í göngunum við mikinn fögnuð gesta. Fulltrúar EFLU voru á staðnum og tóku þátt í hátíðarhöldunum.

Dýrafjarðargöng koma til með að verða mikil samgöngubót fyrir Vestfirðinga og taka við af einum erfiðasta fjallveg landsins, Hrafnseyrarheiði. Göngin munu stytta leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um 27 km.

Gegnumbrotið tók 19 mánuði

Framkvæmdir við göngin hafa gengið afar vel og engar meiriháttar tafir hafa orðið á verktíma. Fyrsta formlega skotið í göngunum var 14. september 2017. Það tók því eingöngu nítján mánuði að bora göngin sem eru 5,3 km inn í fjallið en alls verða þau 5,6 km löng, þar af 5,3 km í bergi og 300 m í vegskálum. Næsta verk við framkvæmdirnar er að klára styrkingar í veggjum, lagnavinnu og vegagerð. Gert er ráð fyrir að göngin opni haustið 2020.

Sem fyrr segir sinna EFLA og Geotek framkvæmdaeftirliti á verkstað fyrir hönd Vegagerðarinnar, en fyrirtækin hafa áður unnið saman við gerð Bolungarvíkurganga og Vaðlaheiðarganga.

Tengdar fréttir