Græn tímamót í sjávarútvegi

07.09.2021

Fréttir
The photo captures four men, two men in high visibility vest, standing in front of a control panel with numerous digital display

Verkefnið var unnið í góðri samvinnu. Talið frá vinstri: Jón Atli Bjarnason frá EFLU, Daði Benediktsson frá EFLU, Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri á Berki og Þórarinn Ómarsson rafvirki hjá Síldarvinnslunni. Ljósmyndari: Smári Geirsson. Birt með leyfi Síldarvinnslunnar.

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar á Norðfirði voru tengd landtengingu í síðustu viku og þar með var fyrsta skrefið stigið í átt að umhverfisvænum orkugjafa. EFLA hefur átt í farsælu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækið í þessu verkefni.

Græn tímamót í sjávarútvegi

Við þessi tímamót óskar EFLA Síldarvinnslunni til hamingju með að vera framsækið og fyrsta fyrirtækið til að landtengja uppsjávarskipin sem þjóna vinnslunni á Norðfirði. Nýju systurskipin Vilhelm Þorsteinsson EA sem tengdist í fyrsta sinn 2. september og Börkur NK í gær, mánudaginn 6. september, þessari 500 kílóvatta landtengingu meðan löndun á makríl fór fram í Norðfjarðarhöfn.

Með tengingunni, sem EFLA vann að með fyrirtækinu, er notaður umhverfisvænn orkugjafi til að kæla aflann, dæla honum á land og sinna annarri raforkunotkun um borð á meðan skipið er við bryggju. Fram til þessa hafa skip fyrirtækisins notað olíu en nýta núna endurnýjanlegan orkugjafa, rafmagn.

Síldarvinnslan greinir frá þessum merka áfanga á vefsíðu sinni. Þar kemur fram að um mikilvægt umhverfismál og ótvírætt framfaraskref sé að ræða. Haft er eftir Gunnþóri B. Ingvarssyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, að landtengingin marki þáttaskil. „Þetta er stórt og jákvætt skref í orkuskiptum íslensks sjávarútvegs. Þetta verkefni er búið að taka okkur nokkur ár í þróun og undirbúningi og þar höfum við átt í góðu samstarfi við verkfræðistofuna EFLU, auk þess sem samstarf við Rarik og framleiðanda búnaðarins hefur verið afar gott.“

Tengingin flytur 500 kílóvött í skipin Vilhelm Þorsteinsson og Börk NK sem hafa þegar nýtt sér tenginguna og verið er að klára að setja upp búnað í þriðja skipið Beiti NK sem mun tengjast á næstu vikum. Fram kemur í fréttinni að þegar öll uppsjávarskip sem landa í Neskaupstað verði komin með réttan búnað megi gera ráð fyrir að olíunotkun í höfninni minnki um 300.000 lítra á ári.

The photo captures a large fishing vessel, industrial equipment and a forklift under cloudy sky

Krani sem lyftir strengjunum um borð í Börk.

Langt og farsælt samstarf

Verkefnið hefur verið nokkur ár í vinnslu hjá Síldarvinnslunni og hefur EFLA komið að hugmyndavinnunni frá upphafi. Með endurnýjun á uppsjávarskipum skapast fleiri tækifæri og hagkvæmari möguleikar varðandi útfærslur á aflmeiri landtengingum eins og þessum. Þegar ákvörðun var tekin um að fara skyldi í þetta verkefni var EFLU falið að sjá um tæknilega ráðgjöf og úrlausn verkefnisins, hönnun og útfærslu við mismunandi þarfir skipa Síldarvinnslunnar og samskipti og samræming við umboðsaðila og framleiðanda búnaðar ásamt tengingum og upplýsingagjöf til Rarik. Einnig sá EFLA um samskipti og skipulagningu með rafmagnsdeild Launafls sem sá um raflagnir og tengingar á búnaði og gekk sú vinna afar vel.

Sjá einnig frétt um aflmeiri landtengingar.

EFLA þakkar fyrir samstarfið og óskar Síldarvinnslunni og Norðfirðingum til hamingju með þennan merka áfanga.

Myndagallerí