Gróðurveggur vekur athygli

01.09.2020

Fréttir
A vertical garden with various plants creating a textured green wall

Gróðurveggurinn vekur mikla athygli í húsi Grósku í Vatnsmýri.

Í nýju húsnæði Grósku í Vatnsmýrinni má sjá nýjan og glæsilegan gróðurvegg sem hefur vakið verðskuldaða athygli. EFLA kom að verkefninu með fjölbreyttum hætti og sá m.a. um forræktun plantna, lagnahönnun og stjórnbúnað.

Húsnæði Grósku er á fjórum hæðum, auk bílakjallara, og á fyrstu hæð hússins er móttaka gesta í húsið og þar fer fram margvísleg þjónusta. Blómlegur gróðurveggurinn er staðsettur þar og setur mikinn svip á húsið.

Snjallt og aðgengilegt stjórnkerfi

Gróðurveggurinn var sérstaklega hannaður fyrir húsnæði Grósku. EFLA tók þátt í að velja búnað og stýrikerfi og sá um lagnahönnun. Um er að ræða gróðurvegg með þar til gerðri ræktunarsteinull (Grodan) sem þekkt er í gróðurhúsaræktun. Innbyggt í vegginn eru sérstakar vökvunarslöngur sem miðla áburði og vatni af mikilli nákvæmni og stjórnað er af áburðarblandara og stýritölvu. Stjórnbúnaður er aðgengilegur í gegnum sérstakt app fyrir snjallsíma og lætur kerfið umsjónarmenn vita ef upp kemur bilun/frávik í kerfi. Þannig má m.a. fyrirbyggja tjón á húsnæði og skemmdir á viðkvæmum gróðri.

Forræktun 2.100 plantna á tveimur mánuðum

Starfsmenn EFLU sáu um forræktun plantna, sem eru af 9 tegundum, samtals um 2.100 stk., í góðu samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ræktunin tók um tvo mánuði og fór fram í húsnæði skólans á Reykjum í Ölfusi. Að lokinni forræktun var gróðurveggurinn fluttur í einingum í húsnæði Grósku. Uppsetning veggjarins var framkvæmd undir stjórn norskra sérfræðinga í gróðurveggjum og tóku starfsmenn EFLU þátt í uppsetningunni sem tók aðeins tvo daga.

Plöntur valdar eftir eiginleikum og þoli

Samkvæmt Magnúsi Bjarklind hjá EFLU er margt sem þarf að huga að við val á plöntum í gróðurveggi. „Plönturnar þurfa að hafa ákveðna eiginleika og þol gagnvart þeim aðstæðum sem þær lifa við. Það þarf mikla reynslu og þekkingu til að para saman tegundir og búa til mynstur úr áferð, lögun og lit, eins og gert var í Grósku.“

Aðspurður um ávinning þess að hafa gróðurveggi segir hann „Gróðurveggjum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og eru oft staðsettir á áberandi stöðum þar sem þeir draga til sín athygli og hafa yfirleitt jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Gróðurveggir hafa ýmsa eiginleika, m.a. jákvæð áhrif á innivist, m.a. rakastig og hljóðvist, einnig sýna ýmsar rannsóknir að plöntur geti hreinsað loft og dregið úr mengun.“

Lítið vatn til spillis

Athygli vekur að lítið sem ekkert vatn fer frá veggnum í frárennsliskerfi. Kerfið er þannig stillt að stöðugur raki haldist í steinullinni, hæfilegt fyrir rótarkerfi plantnanna en lítið sem ekkert umfram það. Kerfið notar um 80 l af vatni á sólarhring en veggurinn er um 40 m2 og heildarfjöldi plantna er um 2.100 stk. Miðað við þetta er notkunin um 42 ml á hverja plöntu á sólarhring.

Reynsla og sérhæfð þekking

EFLA hefur víðtæka reynslu af hönnun, viðhaldi og uppsetningu á gróðurveggjum og sérfræðingar fyrirtækisins koma til með að sjá um umhirðu gróðurveggjarins. Það felur í sér eftirlit með áburðarvökvun, gróðurlýsingu og grisjun plantna sem er framkvæmd á 7-8 vikna fresti.

Smelltu á örvarnar til að skoða fleiri myndir