Hönnunarmöstur í Noregi

19.10.2018

Fréttir
Three white transmission towers

Turnarnir þrír sem mynda sérhannað háspennulínumastur í Rogalandi, Noregi.

Við vinsælan ferðamannastað í Noregi, Kjerag í Rogalandi, hafa risið þrír háir turnar sem saman mynda sérhannað háspennulínumastur efst í fjalls­hlíðinni. Starfsmenn EFLU í Noregi og á Íslandi ásamt Widenoja Design höfðu veg og vanda að hönnun turnanna fyrir Statnett en fleiri aðilar komu að hönnun bergundirstaðanna.

Statnett, sem rekur flutningskerfi raforku í Noregi, hefur síðastliðinn áratug unnið að því að styrkja og stækka flutningskerfið um allt landið samhliða því að tengjast meginlandi Evrópu með fleiri sæstrengjum. EFLA hefur unnið náið með fyrirtækinu varðandi burðarþols- og raftæknilega hönnun kerfisins.

Þróun nýrra mastra

Samhliða stækkun flutningskerfisins hefur EFLA unnið að þróun nýrra mastra fyrir Statnett til að nota við uppbygginguna. Sjálfbærni var höfð að leiðarljósi við hönnunina og áhersla lögð á að byggja upp kerfi í sátt við samfélag, efnahag og umhverfi

Þar sem háspennulínan sem um ræðir, 420 KV Lyse-Tjørhorn, liggur við fjölfarinn ferðamannastað var lagt mikið upp úr því að hönnun mastranna væri í senn tímalaus, falleg og myndi falla sem best inn í umhverfið. Widenoja Design á heiðurinn að hugmyndinni og útlitinu, en Statnett óskaði strax í upphafi verks að EFLA tæki að sér tæknilega rýni á hugmyndinni og síðar lokahönnun á mastrinu. Sveitarfélagið Forsand var einnig mjög jákvætt gagnvart hugmyndinni sem hjálpaði Statnett við að gera hana að veruleika.

Innblástur frá náttúrunni

Stórbrotin náttúran í Rogalandi veitti iðnhönnuðinum Eva Widenoja hjá Widenoja Design innblástur fyrir hönnunina „Út frá bæði tæknilegum og umhverfislegum sjónarmiðum þurftu turnarnir að vera bæði tilkomumiklir og öflugir, og lögðu því grundvöllinn að þessari áberandi hönnun. Á sama tíma langaði mig að hanna möstur sem myndu falla sem best inn í landslagið og hráa náttúruna. Til þess að birgja ekki fyrir útsýnið á staðnum var farin sú leið að hafa turnana þrjá í stað eins.“ sagði Eva.

Hönnun mastranna innan frá

Möstrin eru ekki bara hönnuð með sérstöku útliti heldur þurfti að huga að mörgum tæknilegum útfærslum inni í þeim líka. „Það þurfti að huga að vinnuöryggi og aðgengi í turnunum þar sem línumenn Statnett verða að geta athafnað sig inni í turnunum og klifrað í þeim.“ sagði Guðmundur M. Hannesson, verkfræðingur hjá EFLU sem hafði veg og vanda að hönnun innra kerfis turnanna.

Sama tækni og í einum hæsta skýjakljúfi heims

Þrátt fyrir þá staðreynd að turnarnir séu mjög stórir, þá eru þeir á sama tíma grannir og berskjaldaðir fyrir áhrifum hugsanlegs titrings í vindi. Þeir voru því byggðir með massadempara (e. tuned mass damper) sem er sama tækni og er notuð í skýjakljúfunum í Taipei 101 í Tævan, einni af hæstu byggingum heims. Massadempunin í Rogalandi er þó aðeins hógværari, um 200 kg, á meðan hún er 660 tonn í Tævan, en í meginatriðum er virknin eins.