Íslensku lýsingarverðlaunin til EFLU

15.03.2018

Fréttir
metal stairs leading towards red stone wall in a cave

Lýsingarhönnun Raufarhólshellis hefur vakið mikla athygli og hlaut bæði Darc Awards verðlaun og Íslensku lýsingarverðlaunin.

EFLA hlaut íslensku lýsingarverðlaunin 2017 í flokki útilýsingar fyrir lýsingarhönnun í Raufarhólshelli. Hellirinn er afar tilkomumikill og með vandaðri og rétt stilltri lýsingu njóta gestir fjölbreyttra og náttúrulegra lita hellisins.

Íslensku lýsingarverðlaunin til EFLU

Raufarhólshellir varð til í eldsumbrotum fyrir um 5200 árum og er einn þekktasti hraunhellir á landinu. Á síðasta ári var ákveðið að fara í mikla uppbyggingu á staðnum og svæðið byggt upp þannig að ferðamenn gætu notið hellisins með öruggum og áhrifamiklum hætti.

Lýsingarhönnun Raufarhólshellis

Raufarhólshellir hefur vakið verðskuldaða athygli frá opnun hans á síðasta ári og spilar lýsingarhönnun hellisins þar stórt hlutverk.

Markmið lýsingarhönnuða EFLU í Raufarhólshelli var að kalla fram sterkt samspil skugga og ljóss og ná fram sem náttúrulegustum litum. Lýsing skyldi stigmagnast eftir því sem innar væri komið í hellinn og lýsa vel upp jarðfræðilega hápunkta hellisins. Göngustígalýsing var hönnuð með það í huga að spila vel saman við umhverfið með hnitmiðaðri og lágtónaðri birtu.

Þá miðaði hönnunin við að allur rafbúnaður yrði sem minnst sjáanlegur og allar framkvæmdir tengdar lýsingu og raflögnum væru að fullu afturkræfar.

Öflugt teymi EFLU

Hjá EFLU starfar öflugt teymi lýsingarhönnuða og sérfræðinga á sviði rafkerfa sem hafa komið að fjölbreyttum verkefnum. Íslensku lýsingarverðlaunin fyrir lýsingarhönnun í Raufarhólshelli er enn ein rósin í hnappagatið á því öfluga starfi sem þar fer fram.

Myndir frá hellinum

Þess má einnig geta að EFLA kom að hönnun og ráðgjöf vegna framkvæmda við uppbyggingu ferðaþjónustu við Raufarhólshelli. Meðal þess sem EFLA kom að var stækkun bílastæða, þjónustuhús byggt upp ásamt öllum veitum fyrir það ásamt gönguleiðum og pöllum inni í sjálfum hellinum.

Nánari upplýsingar um íslensku lýsingarverðlaunin er að finna á vef Ljóstæknifélagsins