Landtenging Norrænu kynnt á málþingi

10.03.2020

Fréttir
A large cruise ship docked near a coast and two small boats

Verið er að skoða möguleikann á að tengja Norrænu við rafmagn við höfnina á Reyðarfirði.

EFLA tók þátt í málþingi um orkuskipti á Austurlandi þar sem fjallað var um vistvænar lausnir í haftengdri starfsemi. Fulltrúi EFLU sagði frá framvindu verkefnis á Seyðisfirði sem miðar að landtengingu Norrænu.

Landtenging Norrænu kynnt á málþingi

Hafið öndvegissetur og Austurbrú stóðu fyrir málþingi í síðustu viku á Reyðarfirði undir yfirskriftinni Vistvænar lausnir í haftengri starfsemi. Forsvarsmenn málþingsins hafa heimsótt nokkur sveitarfélög upp á síðkastið með það að markmiði að ræða áherslur sjávarútvegsins og helstu tækifæri hvað varðar umhverfismál, loftslagsmál og orkuskipti skipaflotans. Þátttakendur málþingsins á Reyðarfirði komu frá helstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Austurlandi, eins og Eskju og Síldarvinnslunni, ásamt fulltrúum sveitarfélaga, Landsvirkjunar og EFLU.

Öflug þjónusta í heimabyggð

EFLA leggur mikið upp úr þjónustu í heimabyggð og er með öflugar starfsstöðvar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Seyðisfirði sem hafa veitt sjávarútvegsfyrirtækjum margvíslega þjónustu um langt skeið. Á meðal nýlegra verkefna eru landtengingar ásamt ráðgjöf og þróun sem tengjast orkuskiptum samgangna. Unnið hefur verið að nokkrum slíkum verkefnum upp á síðkastið s.s. verkefni fyrir Síldarvinnsluna, Norrænu og Seyðisfjarðarbæ.

Norræna hentar vel til landtengingar

Brynjar Bragason, rafmagnstæknifræðingur hjá EFLU, tók þátt í pallborðsumræðum og hélt erindi um rafvæðingu hafnarinnar á Seyðisfirði um landtengingu Norrænu. Helstu niðurstöður eru að landtenging Norrænu á Seyðisfirði hentar mjög vel vegna langra dvalartíma við bryggju. Rafkerfi til Norrænu er á sömu tíðni og spennu líkt og rafkerfi hafnarinnar ásamt því að dreifikerfi RARIK ræður við aukið álag sem þessu nemur. Búið að útfæra tengingu kerfisins við RARIK og skilgreina tæknilegar útfærslur bæði um borð í ferjunni og við höfnina.

Headshot of a man

Brynjar Bragason hélt erindi um landtengingu Norrænu.

Jákvæð umhverfisáhrif

Einnig sagði Brynjar frá jákvæðum umhverfisáhrifum sem landtenging Norrænu hefði í för með sér. Dvalartími skipsins við höfn er á ársgrundvelli 1380 klt og eyðir skipið þann tíma um 400 m3 af olíu árlega. Sú notkun losar um 950 - 1.200 tonn af CO2 ígildum á ári.

Undirbúningi verkefnisins er því sem næst lokið og ekkert að vanbúnaði að hefja þessa vegferð sem samræmist vel stefnu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í loftslagsmálum og áætlun um orkuskipti í höfnum.

Nánari upplýsingar um landtengingar skipa