Málefni hjólreiða rædd

25.09.2018

Fréttir
A person biking next to a field of blooming white flowers

Málefni hjólreiða voru rædd á ráðstefnu sem fór fram föstudaginn 21. september 2018.

Ráðstefnan Hjólum til framtíðar fór fram síðastliðinn föstudag og tóku starfsmenn EFLU þátt í ráðstefnunni. EFLA var með kynningarbás á svæðinu og fluttu tveir samgönguverkfræðingar okkar erindi.

Málefni hjólreiða rædd

Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna standa að ráðstefnunni sem fer fram árlega. Meginþema ráðstefnunnar í ár var Veljum fjölbreytta ferðamáta. Fyrirlesarar voru bæði innlendir og erlendir og meðal umfjöllunarefna var þróun hjólreiða í samgöngum, öryggi hjólreiðamanna og nýjar hönnunarleiðbeiningar hjólamannvirkja kynntar. Þátttakendur á ráðstefnunni voru áhugamenn um hjólreiðar ásamt aðilum frá sveitarfélögum, hinu opinbera og einkaaðilum sem koma að hönnun og skipulagi hjólreiðastíga og málefnum tengdum hjólreiðum.

Slys meðal hjólandi vegfarenda kortlögð

Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um umferðaröryggi hjólandi vegfarenda í Reykjavík og fjallaði um niðurstöður umferðaröryggisáætlunar borgarinnar út frá hjólandi umferð. Fjallaði Berglind um fjölgun og þróun slysa meðal hjólandi vegfarenda á árunum 2012-2016.

Flest slysa meðal hjólreiðafólks eru árekstrar við ökutæki og einslys, þ.e. þegar vegfarandi dettur af hjólinu. Fjölgun einslysa skýrist meðal annars vegna þess að skráning þeirra byrjaði fyrst árið 2010 en einnig vegna aukinna hjólreiðar. Gera má þó ráð fyrir því að nokkuð vanti upp á skráningu slysa hjólandi vegfarenda þegar ekkert ökutæki á aðild að slysinu.

Headshot of a woman

Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur.

Íslenskar hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar

Bryndís Friðriksdóttir, samgönguverkfræðingur, fjallaði um gerð leiðbeininga sem EFLA hefur unnið að varðandi hönnun fyrir reiðhjól á Íslandi. Leiðbeiningarnar eru samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar.

Leiðbeiningarnar byggja á leiðbeiningum Reykjavíkurborgar frá 2012, vinnu Vegagerðarinnar sem og leiðbeiningum annarra þjóða. Ætlunin er að bæta og samræma gæði þeirra lausna sem hannaðar eru fyrir hjólreiðamenn. Í leiðbeiningunum er tekið á útfærslu hjólaleiða eftir aðstæðum og að aðskilja umferð hjólandi og gangandi þar sem við á. Einnig er lögð áhersla á að auka samspil og samvinnu akandi, hjólandi og gangandi. Þá eru veittar leiðbeiningar um hönnun hjólaleiða, uppbyggingu og útfærslu á gerð hjólastíga.

Hönnunarleiðbeiningarnar eru aðgengilegar sem drög inn á vef SSH . Öllum er frjálst að koma með athugasemdir við innihald og efnistök í tölvupósti. Ætlunin er að gefa út endanlegar leiðbeiningar í byrjun árs 2019.

Headshot of a woman

Bryndís Friðriksdóttir, samgönguverkfræðingur.

Öflug þekking á hjólreiðum

EFLU er umhugað um umferðaöryggi og bætta hjólamenningu á Íslandi. Fyrirtækið hefur mikla þekkingu á kröfum og aðstæðum hjólreiðamanna og veitir fjölþætta þjónustu á sviðinu.

Tengdar fréttir