Matskerfi til að meta álag ferðamanna á Íslandi

02.10.2019

Fréttir
A large group of people observing geyser eruption in a snowy landscape

Ferðamenn á Íslandi.

Haustið 2017 hófst umfangsmikið verkefni, Jafnvægisás ferðamála, þar sem lagt er mat á álag á íslenskt samfélag, efnahag, innviði og umhverfi vegna fjölda ferðamanna á Íslandi. EFLA stýrði verkefninu ásamt Stjórnstöð ferðamála og vann greiningarvinnu og skýrslugerð í samstarfi við TRC Tourism frá Nýja Sjálandi og RTS frá Bandaríkjunum. Jafnvægisásinn er viðamikið og mikilvægt stjórntæki sem segir til um það hvar ferðamál á Íslandi standa með tilliti til sjálfbærrar nýtingar.

Matskerfi til að meta álag ferðamanna á Íslandi

Verkefnið kallast Jafnvægisás ferðamála og er unnið í samstarfi við helstu hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar hérlendis. Jafnvægisásinn er viðamikið og mikilvægt stjórntæki sem segir til um það hvar ferðaþjónustan stendur gagnvart yfir 60 vísum, eða mælikvörðum, sjálfbærrar nýtingar. Verkefninu var skipt í tvo áfanga og hófst vinna við að þróa matskerfi með því að skilgreina sjálfbærnivísa sem gefa yfirlit um álag á helstu snertifleti ferðamannsins. Rúmlega 60 vísar voru settir fram og hefur hver og einn vísir skilgreint hlutverk til að meta heildstætt álag ferðamanna á umhverfi, samfélag og innviði. Að auki var mat lagt á afkastagetu viðkomandi innviða, öryggi og umhverfisáhrif sem aukin notkun af völdum ferðamanna kann að valda.

Haustið 2018 kom út áfangaskýrsla um álagsmat vegna fyrsta áfanga verkefnis.

Skýrslu | Álagsmat - fyrsti áfangi

Álagsmat framkvæmt á landsvísu

Í seinni áfanga verkefnisins var álagsmatið framkvæmt, byggt á sjálfbærnivísum sem settir voru fram í fyrsta áfanga. Lagt var mat á landið í heild en ekki einstök svæði eða staði. Núverandi ástand var metið með tilliti til þolmarka sem voru ákveðin fyrir hvern vísi.

  1. Yfir þolmörkum: Þar sem ástand vísis er talið vera orðið það slæmt að grípa þurfi til aðgerða ef frekari hnignun á ekki að eiga sér stað
  2. Farið að nálgast þolmörk: Þar sem ástand vísis er ekki gott og huga þarf að aðgerðum til að bæta ástand hans
  3. Undir þolmörkum: Ástand vísis er metið gott og ekki talin þörf fyrir sérstakar aðgerðir.

Einnig var tveimur sviðsmyndum stillt upp þar sem annars vegar var reiknað með að árleg fjölgun ferðamanna til 2030 yrði 2% en hins vegar 5%, og ástand sjálfbærnivísanna metið m.t.t. þessarar framtíðarfjölgunar.

Yfirlit yfir aðkallandi aðgerðir

Niðurstaða verkefnisins er yfirlit yfir ástand lykilinnviða, efnahags, samfélags- og umhverfislegra þátta, og hvar úrbóta er þörf við núverandi ástand og til ársins 2030. Við núverandi ástand er þegar orðið aðkallandi að huga að málum sem varða umhverfismál, þ.e. fráveitum, urðun úrgangs og kolefnisspori ferðamála. Ef ekki er ráðist í frekari aðgerðir er talið líklegt að það sama muni eiga við um vegakerfið, heilbrigðisþjónustu og löggæslu og álagsstýringu og stjórnun á náttúrstöðum.

Kallað eftir umsögnum vegna fyrstu niðurstaðna

Sumarið 2019 birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til umsagnar fyrstu niðurstöður Jafnvægisássins inni á Samráðsgátt. Tilgangur Jafnvægisáss ferðamála er að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins og mun hann nýtast sem verkfæri við ákvarðanatöku vegna álagsstýringar. Markmiðið er að stuðla að jafnvægi og sjálfbærri þróun íslenskrar ferðaþjónustu til lengri tíma. Sjá nánar á vefsíðu Samráðsgáttar.

Lokaniðurstöður kynntar á fundi ráðherra

Föstudaginn 27. september voru lokaniðurstöður Jafnvægsisássins kynntar á fjölmennum fundi sem atvinnu- og nýsköpunarráðherra boðaði til. Á fundinum var einnig kynnt ný framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar til ársins 2030 sem unnin var í sameiningu af ráðuneyti ferðamála, Samtökum ferðaþjónustunnar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Til að styðja við þessa framtíðarsýn hafa verið sett markmið um að árið 2030 verði heildarútgjöld ferðamanna 700 milljarðar króna, yfir 90% landsmanna verði jákvæð í garð ferðaþjónustu, meðmælaskor erlendra ferðamanna verði hærra en 75 og virkri álagsstýringu hafi verið komið á. Saman eiga leiðarljósin og Jafnvægisásinn að tryggja að kröftum allra helstu hagaðila íslenskrar ferðaþjónustu verði beint í rétta átt til að ná settu marki.

Sjá nánar verkefnalýsingu - Jafnvægisás ferðamála