Notuð eða ný föt - skiptir þetta máli?

21.09.2020

Blogg
Fataslá með fötum á herðatrjám

Öll okkar neysla og allar okkar athafnir hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Það sem við kaupum, vörur sem við notum, matur sem við borðum, þjónusta sem við sækjum, hvernig við ferðumst milli staða – allt þetta hefur áhrif.

Textíliðnaðurinn

Í fræðslubyltingu síðastliðinna missera - í sjónvarpi, útvarpi og í rafrænum og prentuðum miðlum - hefur landsmönnum verið gert ljóst að ástandið er alvarlegt og að allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Öðruvísi verður ekki hægt að snúa við þeirri þróun sem afleiðingar loftslagshlýnunar hafa á komandi kynslóðir.

Textíliðnaður nær yfir allt ferlið sem þarf að eiga sér stað til að framleiða vefnaðarvöru. Í því felst m.a. ræktun trefja og meðhöndlun dýra, uppskeru, hreinsunar og vinnslu hráefna.

Ber ábyrgð á 8% af heildarlosun

Fataiðnaðurinn er hér ekki undanskilinn. Á vefsíðunni Kolefnisreiknir.is geta allir landsmenn reiknað út sitt eigið kolefnisspor og séð hvernig því ber saman við meðalkolefnisspor Íslendings. Hér á landi eru það ferðir, neysla og matur sem vega þyngst í kolefnissporinu og á vefnum eru veitt góð ráð til að minnka það. Fatnaður og skór eru stór hluti af neyslunni, en á heimsvísu er textílneysla metin á 11,4 kg af fatnaði árlega á hvern jarðarbúa, og er iðnaðurinn talinn valda a.m.k. 8% gróðurhúsaáhrifa á jörðu1 (tæp 4 milljarðar tonna CO2- ígilda árið 2016).

Virðiskeðja textíliðnaðarins samanstendur af samspili margra aðila innan ólíkra geira, t.d. landbúnaði og efnaiðnaði, og veldur framleiðslan margvíslegum umhverfisáhrifum á öllum stigum, t.d. losun gróðurhúsalofttegunda, næringarefnaauðgun, súrnun sjávar, vatnsnotkun, eyðingu lífrænna auðlinda og breytingu á landsnotkun. Og þá er einungis búið að nefna fáein umhverfisáhrif sem iðnaðurinn veldur, en hann veldur ekki síður mikilvægum samfélagsáhrifum sem lúta til dæmis að jafnrétti, sanngjörnum kjörum, barnaþrælkun og öryggi starfsfólks.

Þar sem losun gróðurhúsalofttegunda á sér stað hjá öllum þessum aðilum er mikilvægt er að líta til allrar virðiskeðjunnar, þ.e. til ferilsins sem þarf að eiga sér stað til að framleiða textílvöru. Í ferlinu felst allt frá ræktun trefja, meðhöndlun jarðvegs og dýra, uppskeru, hreinsun og vinnslu efna yfir í flutninga milli heimshorna, samsetningu ólíkra efna, innpökkun, o.s.frv.

Hvar skórinn kreppir

Kolefnisspor er mælikvarði á losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Hægt er að reikna út kolefnisspor vöru með því að beita aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment, LCA), sem er stöðluð aðferðafræði (ISO 14040 og ISO 14044) og tekur mið af öllum vistferlinum, yfir allan líftíma vörunnar. Kolefnisspor fyrir fatnað og skó er háð ýmsum þáttum á borð við tegund flíkur, tegund textíls og upprunalandi. Almennt má þó segja að vinnsla hráefna og framleiðsluferli textíls valdi mestu gróðurhúsaáhrifunum og getur samanlagt myndað meira en helming áhrifanna. Í tilfelli skófatnaðar er um meiri vinnslu að ræða og vegur framleiðsluferlið því ennþá þyngra.

Ef skoðað er mismunandi innihald textílefna á Evrópumarkaði2 má sjá að bómull er algengasta efnið (43%) og pólýester næstalgengast (16%). Næst á eftir koma akrýl, ull og viskós sem samanlagt mynda 10% af hlutfallinu. Kolefnisspor efnanna er metið á bilinu 15–46 kg CO2-ígilda fyrir hvert kíló textílefnis.3

Súlurit sem sýnir ólíka efnisnotkun hjá Nike - Virðiskeðju textíls

Kolefnisspor allrar framleiðslu (skór og fatnaður) hjá Nike (2016). Meðalkolefnisspor fyrir hverja vöru er 7,33 kg CO2-ígilda. Mynd fengin úr skýrslu SBTi – World Resources Institute (4) frá 2019.

Endurnýting og endurvinnsla skili mestum árangri

Í skýrslu rannsóknarstofnunar Evrópusambandsins2 um tækifæri til úrbóta í textíliðnaðinum voru teknar saman þrettán aðgerðir sem taldar voru skila mestum árangri til að draga úr umhverfisáhrifum iðnaðarins. Voru þessar aðgerðir metnar út frá víðtækri vistferilsgreiningu sem gerð var fyrir geirann í heild sinni í Evrópu. Talið var að mestum ávinningi skiluðu þær aðgerðir sem sneru að sjálfum notandanum, t.d. meðhöndlun hans á fatnaðinum. Sú aðgerð sem skilaði mestum árangri í flestum áhrifaflokkum var endurnýting og endurvinnsla á fatnaði. Með öðrum orðum var talið að breytt hegðunarmynstur myndi skila sér í mestum ávinningi fyrir samfélagið, og að það gæti eingöngu náðst með miðlun upplýsinga og að innviðir samfélagsins væru tilbúnir.

Aðgerðir sem þessar í anda hringrásarhagkerfisins voru hins vegar ekki taldar duga til í skýrslu Quantis frá 20181, heldur var einnig talið nauðsynlegt að draga úr allri losun frá framleiðslu með því að skipta úr óendurnýjanlegum orkugjafa yfir í endurnýjanlega og auka einnig orkunýtni framleiðslunnar.

Meðal annarra atriða sem taldar eru einnig munu bæta iðnaðinn á næstu árum og draga úr umhverfisáhrifum hans eru snjalllausnir á borð við fataleigur (t.d. danska barnafataleigan Vigga), endursala á hágæðavörum (t.d. finnska endursölusíðan Emmy.fi) og umhverfisvænni hönnun sem byggir á háum gæðum og hámarksendingu fatnaðar (t.d. As We Grow og Polarn O. Pyret).

Breytt neyslumynstur umhverfinu til heilla

Á Íslandi er vert að athuga hvað til sé af ofangreindum lausnum. Lengi hafa verið reknar fataverslanir Rauða krossins og Hjálpræðishersins, og fyrir fáeinum árum bættust við verslanir þar sem fólk getur bæði selt og keypt notaðan fatnað, ýmist barnaklæðnað eða föt fyrir fullorðna. Þá eru undanskildar sölusíður á samfélagsmiðlum þar sem notuð föt ganga einnig kaupum og sölum milliliðalaust.

Fataleigur hafa einnig verið starfræktar hér á landi fyrir allra fínustu hátíðarklæðin, en vonandi líður ekki á löngu þangað til að við förum að sjá snjallvæddari fataleigur eins og til eru erlendis fyrir fínan en óformlegri klæðnað.

Lengri líftími flíkarinnar

Fatnaði má auðvitað líka halda vel við. Mörg bókasöfn eru farin að bjóða upp á aðgengi að saumavélum og einnig bjóða margar saumastofur upp á þjónustu við að skipa út rennilásum, lagfæra göt og saumsprettur til þess að framlengja líftíma flíkurinnar.

Eftirtektarverður loftslagsávinningur íslenskrar verslunar

Barnaloppan, sem gerir fólki kleift að selja og kaupa notuð barnaföt, bað EFLU nýlega um að meta loftslagsávinning af starfsemi sinni. Frá því að verslunin opnaði árið 2018 er metið að sparast hafi um fimm þúsund tonn í losun koltvísýringsígilda út í umhverfið. Það jafnast á við útblástur um 2.500 bíla á einu ári. Þessar tölur jafngilda einnig fullum klæðnaði á 80 þúsund íslensk börn, miðað við átta flíkur og tvö leikföng á hvert barn.

Í hvert skipti sem að valinn er sá kostur að kaupa notaða vöru í stað þess að kaupa nýja er verið að draga úr framleiðsluþörf á nýrri vöru og nýta hráefni jarðar betur. Þegar fötum er haldið vel við er á sama hátt komið í veg fyrir tíða fataneyslu.

Stefnubreyting í farvatninu

Nú eru komnar fram á sjónarsviðið nokkrar fataverslanir (t.d. ORG og Ethic.is) sem selja vörur eingöngu frá framleiðendum sem lágmarka vistsporið sitt og/eða bjóða upp á vottaðar gæðavörur t.d. vottaða lífræna framleiðslu eða svokallaða „fair trade“ vottun. Nokkrar af stóru alþjóðlegu fatakeðjunum eru með áætlanir um umhverfisvænni framleiðslu og stórvirkar stefnubreytingar í þá átt. Það verður áhugavert að fylgjast með þróuninni og hvort þessar keðjur komi til með að víkja frá áður ríkjandi áherslu á mikla og tíða fataneyslu (e. „fast fashion“), sem kyndir aftur undir stöðuga neyslu og tilheyrandi áhrifum.

Nokkrir virtustu fatahönnuðir heims eru farnir að hafna þessari viðteknu hugmyndafræði um öra endurnýjun fataskápsins og fræg er orðin t.d. yfirlýsing listræns stjórnanda Gucci, Alessandro Michele, um „línulausa nálgun“

(e.„seasonless“), þ.e. að hætta að koma með nýja línu fyrir hverja árstíð, og fækka þeim frekar í tvær „sígildar“ línur á ári. Með öðrum orðum er markmiðið að tískuneytendur fækki flíkum í fataskápnum, skipti þeim ekki jafn oft út, og leggi þeim mun meiri áherslu á sígildan gæðafatnað sem nýst getur til fjölda ára.

Heimildir

  1. Quantis (2018) Measuring Fashion. Environmental Impact of the Global Apparel and Footwear Industries Study.

  2. A. Beton o.fl. (2014) Environmental Improvement Potential of textiles (IMPRO Textiles). JRC Scientific and Policy Reports

  3. WRI (2019) Apparel and footwear sector. Science-based targets guidance.

  4. B. Thomas o.fl. (2012) A Carbon Footprint for UK Clothing and Opportunities for Savings. Final Report. WRAP