Róbótar sem vinna við hlið starfsfólks

13.11.2021

Fréttir
Few red flags fluttering with inscription "Akraborg" and a building also labelled with same text

Akraborg hefur verið starfandi frá 1989 og er með starfsemi á Akranesi og í Ólafsvík.

EFLA, í samstarfi við PERUZA, hefur unnið að hönnun og virkni á liðsinnisróbótum (e. cobot) í framleiðslufyrirtækinu Akraborg. Róbótarnir koma til með að tvöfalda afkastagetu pökkunarlínunnar og létta á líkamlegu álagi á starfsfólk.

Róbótar sem vinna við hlið starfsfólks

Um er að ræða hönnun og smíði pökkunarlínu fyrir matvælaframleiðslu-fyrirtækið Akraborg, sem hefur í meira en en 30 ár verið leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á hágæða niðursoðinni þorskalifur og tengdum afurðum. Nýja línan leysir eldri pökkunarlínu af hólmi sem að hluta til reiddi sig á mikla handavinnu starfsfólks. Pökkunarlínan inniheldur meðal annars þau færibönd sem fyrir voru í rýminu og hægt var að nýta. Hún er einnig búin öflugu gæðaeftirliti, en síðast en ekki síst liðsinnisróbótum (cobot), sem eru hannaðir og smíðaðir þannig að þeir geta unnið hættulaust í sama rými og starfsfólk.

Hönnun tekur mið af ólíkum þörfum

Tveir liðsinnisróbótar (cobot) eru í nýju pökkunarlínunni hjá Akraborg en sá þriðji er hefðbundinn róbóti, staðsettur í afgirtu rými, sem hefur það hlutverk að stafla vörum á bretti. Allir þrír róbótarnir eru búnir nýjustu tækni og eru færir um að pakka vörum sem eru ólíkar að þyngd og lögun en sá eiginleiki hentar fyrirtækjum sem framleiða margar ólíkar vörutegundir afar vel. Skamman tíma tekur að aðlaga pökkunarlínuna þegar framleiðsla á nýrri vöru hefst.

Pökkunarferlið frá A-Ö

Eftir að dósunum er raðað með sjálfvirkum hætti á pökkunarlínuna, og bæði gæðaeftirliti og merkingu lýkur, raða liðsinnisróbótarnir dósunum upp í hæfilega stafla með nákvæmum hætti. Þeir pakka því næst dósunum í þær umbúðir sem til er ætlast og afhenda loks róbótanum einingarnar. Hann raðar þeim á vörubretti, sem að lokum eru sóttar með lyftara.

Með lítilli fyrirhöfn er hægt að laga pökkunarlínuna að breyttum umbúðum eftir því hvernig vöruþróun fyrirtækisins vindur fram. Öll hönnun EFLU gerir ráð fyrir að slíkar breytingar geti orðið.

Afköstin nærri tvöfaldast

Óhætt er að segja að pökkunarlínan, sem er mikilvægur hlekkur í endurbótum sem Akraborg vinnur nú að, eigi eftir að bylta pökkunargetu fyrirtækisins. Nærri lætur að hún tvöfaldi afköstin frá því sem áður var en fyrirtækið hefur á köflum þurft að láta vélarnar ganga dag og nótt.

Nýja pökkunarlínan mun því ekki aðeins draga úr líkamlegu álagi á starfsfólk og gera störfin hagkvæmari, heldur einnig auka afkastagetu framleiðslunnar. Við hönnunina var áhersla lögð á að nýta þær fjárfestingar sem fyrir voru í rýminu.

Samvinna á öllum stigum

EFLA kappkostar að veita viðskiptavinum sínum heildarþjónustu þegar kemur að hátæknilausnum og vinnur með stórum og smáum fyrirtækjum. Mikil áhersla er lögð á hagkvæmar lausnir og útfærslu lausna sem gera eldri tækjum kleift að vinna með nýjum. Þannig getur nýr hátæknibúnaður verið lagaður fullkomlega að eldra stjórnkerfi verksmiðjunnar. Til að vel takist til við útfærslu heildarlausna leggur EFLA mikla áherslu á þarfagreiningu og góð samskipti við viðskiptavini sína og sér í lagi það starfsfólk sem starfar við vélarnar og pökkunarlínurnar. Með þeim hætti fást mikilvægar upplýsingar sem snúa að starfinu og þeim áskorunum sem eru fyrir hendi. Slíkt samstarf eykur skilvirkni, ánægju og heildarútkomu verkefnisins frá upphafi allt þar til vélarnar eru gangsettar.

EFLA hefur unnið að útfærslu lausnarinnar í góðu samstarfi við lettneska vélbúnaðarframleiðandann PERUZA og Akraborg við útfærslu nýju pökkunarlínunnar.

Viltu vita meira um verkefnið og þjónustu EFLU? Það er velkomið að senda okkur línu og við höfum samband um hæl.

Hafa samband