Stálvirki nýrrar göngubrúar í Noregi reist

30.10.2018

Fréttir
Three men wearing high visibility jacket at a brightly lit construction site at night

Magnús Arason, brúarverkfræðingur hjá EFLU, fylgist með framkvæmdunum þann 28. október.

Um helgina var reist stálvirki í lengsta haf nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Ring 3 stofnbrautina í Osló. EFLA hannaði brúna og hefur gegnt lykilhlutverki í undirbúningi framkvæmdarinnar. Reising þessa hluta brúarinnar er einn veigamesti verkþátturinn, ekki síst vegna þess að loka þurfti Ring 3, en um stofnbrautina aka yfir 60.000 ökutæki á dag.

Bráðabirgðabrú í 26 ár

Nýja brúin rís við gatnamót Ring 3 og Sognsveien, Ullevaalskrysset, en við þau stendur Ullevaal stadion, þjóðarleikvangur Norðmanna. Núverandi brýr voru reistar til bráðabirgða fyrir 26 árum og þjóna engan veginn hlutverki sínu lengur. Þær eru aðeins 2,5 m breiðar og henta því illa til hjólreiða, ekki síst til viðbótar við þá miklu umferð gangandi vegfaranda sem er um þær. Með tilkomu nýju brúarinnar mun umferðaröryggi og umferðarrýmd aukast til mikilla muna.

Verkefnið er hluti af átaki verkkaupans, norsku Vegagerðarinnar, við að fjölga þeim sem ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur á leið sinni til og frá vinnu. Sjá kynningu á verkinu á vef norsku Vegagerðarinnar.

Mikilvægur áfangi

Aðfaranótt sunnudagsins 28. október var lengsta brúarhafið híft á sinn stað. Aðstæður á verkstað voru góðar og veðrið hagstætt, hægviðri og heiðskýrt. Brúarhafið sem þverar Ring 3 er 37 m langt og um 70 tonn að þyngd. Brúin er úr stáli, en stálburðarvirki var valið þar sem hægt er að reisa það í stórum einingum, og ekki er þörf á að loka undirliggjandi götum og vegum nema í mjög skamman tíma. Stálvirki brúarinnar er í um 20 einingum, sem framleiddar eru í Litháen.

Að sögn Magnúsar Arasonar brúarverkfræðings og verkefnisstjóra EFLU gengu aðgerðir helgarinnar vel og mikil ánægja er með að sjá brúna loks taka á sig mynd.

Sígur á seinni hluta framkvæmdarinnar

Áætlað er að allt stálvirki brúarinnar verði komið á sinn stað fyrir árslok. Þá er eftir gerð og tenging nýja göngustígakerfisins á svæðinu, landmótun og frágangur. Áætluð verklok eru haustið 2019. Nánari upplýsingar um hlutverk EFLU í verkinu.