Síðastliðinn föstudag fór fram ráðstefnan Hjólum til framtíðar. Starfsfólk EFLU á sviði hjólreiða og samgangna tóku þátt og héldu þrjú erindi á ráðstefnunni.
Þrjú erindi á ráðstefnu um hjólreiðar
Ráðstefnan sem fór fram í Ráðhúsi Garðabæjar föstudaginn 20. september er haldin árlega undir yfirskriftinni Hjólum til framtíðar. Viðburðurinn er á vegum Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna. Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum'etta og voru fyrirlesarar bæði erlendir og innlendir. Fjallað var um fjölbreyttar ferðavenjur, lausnir fyrir hjólandi vegfarendur og efling hjóla og almenningssamgangna. Þátttakendur ráðstefnunnar voru áhugamenn um hjólreiðar ásamt aðilum frá sveitarfélögum, hinu opinbera og einkaaðilum sem koma að hönnun og skipulagi hjólreiðastíga og málefnum tengdum hjólreiðum.
Vistvæn til og frá vinnu
Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um þau tækifæri sem fyrirtæki geta farið til að innleiða samgöngustefnu og samgöngusamning. Einnig sagði hann frá áhrifum þess að innleiða samgöngustefnu til að hvetja starfsmenn til að ferðast vistvænt, og benti á leiðir sem væri hægt að gera enn betur en við gerum í dag.
Daði hefur unnið að nýsköpunarverkefninu Samgönguspor sem aðstoðar fyrirtæki við að innleiða og framfylgja samgöngustefnu.

Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur.
Hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar
Ragnar Gauti Hauksson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, sagði frá hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. Um er að ræða afrakstur mikillar vinnu við að gefa út sameiginlegar leiðbeiningar fyrir hjólreiðar. Leiðbeiningarnar byggja á eldri leiðbeiningum frá Reykjavíkurborg, en Samtök Sveitarfélaga og Vegagerðin koma að nýju hönnunarleiðbeiningunum sem eru afar þýðingarmiklar fyrir komandi uppbyggingu og framþróun hjólreiðainnviða.
Hönnuðir og hagsmunaaðilar hafa skoðað drögin sem voru gefin út í fyrra, komu með athugasemdir sem nú er búið að taka tillit til. Einnig er búið að uppfæra leiðbeiningarnar út frá nýju umferðarlögunum sem voru samþykkt á Alþingi í sumar. Vinnan við hönnunarleiðbeiningarnar er nú á lokametrunum og verða þær fljótlega gefnar út.

Ragnar Gauti Hauksson, samgönguverkfræðingur.
Stofnstígar hjólreiða
Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir, skipulagsfræðingur hjá EFLU, steig í pontu og fjallaði um notkun stofnstíga hjólreiða en hún starfar við verkefni á sviði umferðartækni, umferðarskipulags- og umferðaröryggismála. Elín Ríta varði meistararitgerð sína í skipulagsfræði við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands fyrr á þessu ári, verkefnið nefnist ,,Öruggari hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu - Notkun stofnstíga hjólreiða og flokkun þeirra". Meginmarkmið verkefnisins var að gera úttekt á notkun stofnstíga hjólreiða á höfuðborgarasvæðinu og greina fjölda og hraða hjólandi vegfarenda á stígunum.

Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir, skipulagsfræðingur.
Bætt hjólamenning og umferðaröryggi
Starfsfólk EFLU hefur mikla reynslu og þekkingu á kröfum og aðstæðum hjólreiðamanna og veitir fjölþætta þjónustu á sviðinu.
- 1 / 3
Elín Ríta hélt erindi um stofnstíga hjólreiða.
- 2 / 3
Ragnar Gauti sagði frá nýjum hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar.
- 3 / 3
Daði Baldur sagði frá Samgönguspori.