Meðal nýjunga sem birt er í skýrslu EFLU um raforkuverð á Íslandi er vísitala raforkuverðs til heimila og kostnaðarvísitala raforkudreifingar til heimila.
EFLA hefur tekið saman mánaðarleg gögn allt frá janúar 2005 úr verðskrám hvers og eins fyrirtækis sem selur rafmagn til almennrar raforkunotkunar og reiknað út frá þeim gögnum mánaðarlega þróun kostnaðar heimilis sem notar 4,5 MWh af raforku á ári til almennar heimilisnotkunar. Hlutdeild hvers og eins raforkusala er metin út frá árlegri markaðshlutdeild hvers og eins raforkusala á smásölumarkaði rafmagns skv. ársreikningum fyrirtækjanna auk gagna frá Umhverfis- og orkustofnun.
Kostnaðarvísitala dreifingu og flutnings raforku til heimila er reiknuð út frá mánaðarlegum gögnum úr gildandi gjaldskrám hvers tíma frá öllum sjö dreifiveitusvæðum landsins og er vægi hvers gjaldskrársvæðis metið út frá árlegri raforkunotkun heimila hjá viðkomandi dreifiveitu af heildar raforkunotkun heimila, skv. tölum Umhverfis- og orkustofnunar.
Líkt og sjá má á mynd 1 hér að neðan hefur vísitala raforkuverðs farið hækkandi nokkuð umfram almennt verðlag á árinu 2024 fram í byrjun árs 2025. Frá apríl til júní 2025 hefur raforkuverð þó staðið í stað, sem rekja má til batnandi vatnsbúskapar í miðlunarlónum víða um land það sem af er ári sem aukið hefur við raforkuframboð vatnsaflsvirkjana.
Þróun í 12 mánaða breytingum vísitalna ásamt vísitölu neysluverðs. Heimild: Umhverfis- og orkustofnun, Hagstofa Íslands og EFLA.
Á mynd 2 sést þróun í 12 mánaða breytingartakti ofangreindra verðvísitalna. Þar sést m.a. að tólf mánaða taktur raforkuverðs í smásölu náði methæðum í upphafi árs 2025 þegar árshækkun mældist um 22%. Það sem af er ári hefur þó heldur dregið úr verðhækkunum og mælist hækkun á meðalverði raforku til heimila frá júní 2024 til júní 2025 um 19%.
Vísitala raforkuverðs og kostnaðarvísitala dreifingu og flutnings raforku til heimila janúar 2005 til júní 2025. Þróun á vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands er einnig sýnd til samanburðar yfir sama tímabil. Heimild: Umhverfis- og orkustofnun, Hagstofa Íslands og EFLA.
Á mynd 3 má sjá þróun meðalverðs raforku og kostnaðar vegna flutnings og dreifingar á föstu verðlagi maímánaðar 2025. Að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar skv. vísitölu neysluverðs sést að kostnaður heimila af raforkunotkun hefur almennt staðið fremur vel í stað á undanförnum 20 árum. Nánar tiltekið hefur raforkuverð til heimila hækkað frá janúar 2005 til júní 2025 að meðaltali um 6% að raunvirði og kostnaður vegna flutnings og dreifingar á raforku að raunvirði um 1% yfir sama tímabil.
Þróun meðalverðs til heimila á föstu verðlagi maí 2025. Heimild: Verðskrár sölufyrirtækja raforku til heimila, verðskrár flutnings- og dreifingaraðila raforku, Hagstofa Íslands, útreikningar EFLU.
Á mynd 4 sést samanburður á lægsta raforkuverði sem í boði hefur verið hverju sinni skv. verðskrám raforkusala og því hæsta. Frá árinu 2005 og fram til ársins 2017 fór raforkusala einungis fram í gegnum dótturfélög dreifiveitna raforku. Árið 2017 hóf Íslensk orkumiðlun ehf. raforkusölu á almenna raforkumarkaðnum og var það fyrsti raforkusalinn hérlendis sem ekki var í eigu neinnar af dreifiveitunum fimm. Árið 2018 bættist Orka heimilanna ehf. við á raforkusölumarkaðinn og fyrirtækið Straumlind árið 2021. Árið 2023 bættist Atlantsorka ehf við á smásölumarkað raforku. Líkt og sjá má á mynd 4 mældist munurinn á milli lægsta og hæsta verðs á almennum raforkumarkaði fremur lítill fram til ársins 2017. Frá þeim tíma hefur sá mismunur hins vegar farið almennt vaxandi og mældist hæstur í janúar 2025 um 53%.
Þróun á lægsta og hæsta raforkuverði til heimila skv. gildandi gjaldskrám sölufyrirtækja raforku. Tölur á verðlagi hvers tímabils. Heimild: Verðskrár sölufyrirtækja raforku til heimila, útreikningar EFLU.
Auk umfjöllunar tengd ofangreindum vísitölum hefur orkumálaráðgjöf EFLU unnið verðspár til komandi tveggja ára á þróun raforkuverðs og kostnaðar við flutning og dreifingu raforku sem nánar er fjallað um í skýrslunni.
Samhliða útgáfu skýrslunnar í PDF formi var ný vefsíða, orkuverd.is, sett í loftið. Á þeirri síðu eru aðgengilegar þær talnaupplýsingar sem fjallað er um í skýrslunni og verða þar gögn uppfærð reglulega eftir því sem ný gögn berast í gagnagrunn EFLU.
Nokkrir kaflar raforkuverðsskýrslunnar eru aðgengilegir á ofangreindri vefsíðu. Fleiri kaflar verða aðgengilegir áskrifendum á næstu mánuðum. Til að gerast áskrifandi, vinsamlegast hafið samband við orkuverd@efla.is.