Tilnefning til Norrænu lýsingarverðlaunanna

09.05.2018

Fréttir
metal stairs leading towards red stone wall in a cave

Lýsingarhönnun Raufarhólshellis hefur vakið mikla athygli og hlaut bæði Darc Awards verðlaun og Íslensku lýsingarverðlaunin.

Lýsingarhönnun EFLU í Raufarhólshelli hefur verið tilnefnd til Norrænu lýsingarverðlaunanna en tvö íslensk lýsingarverkefni hlutu tilnefningu. Hitt verkefnið er lýsingarhönnun í Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Á bak við Norrænu lýsingarverðlaunin, Nordisk Lyspris, standa samtök ljóstæknifélaga á Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

Norrænu lýsingarverðlaunin eru afhent á tveggja ára fresti og er markmið þeirra að vekja athygli á vandaðri norrænni lýsingu. Úrslitin verða kunngjörð 12. september næstkomandi í Helsinki, Finnlandi, og keppa tíu verkefni frá aðildarlöndunum fimm um verðlaunin. Á verðlaunadeginum kynnir Ágúst Gunnlaugsson, lýsingarhönnuður hjá EFLU, lýsingarhönnun Raufarhólshellis fyrir framan dómnefnd og gesti.

Íslensku lýsingarverðlaunin

Í mars hlaut EFLA íslensku lýsingarverðlaunin fyrir lýsingarhönnun utanhúss í Raufarhólshelli og í umsögn dómnefndar kom m.a. fram; „Vandlega valdar lampastaðsetningar, vel úthugsuð ljósastýring og lýsingarhönnun sem skilur samspil ljóss og myrkurs magna þessa draumaveröld í iðrum jarðar og minnir okkur á að náttúran er hinn mikli meistari.“ Í hönnun lýsingarinnar var leitast við að kalla fram sterkt samspil skugga og ljóss og ná fram sem náttúrulegustum litum bergsins, að allur ljósbúnaður væri sem minnst sýnilegur gestum og að framkvæmdin væri að fullu afturkræf.

Það er Ljóstæknifélag Íslands sem veitir íslensku lýsingarverðlaunin árlega og tilnefnir tvö af verðlaunaverkunum til að taka þátt í Nordisk Lyspris.

Verkefnalýsing Raufarhólshellis.