Uppbygging í Finnafirði ásamt Jafnvægisás ferðamála kynnt

15.10.2019

Fréttir
Six individuals seated at a long table and two speakers at a podium, in front of a large screen displaying "ARCTIC CIRCLE"

EFLA tók þátt í Arctic Circle sem fram fór í Hörpu 10.-12. október.

EFLA er einn af bakhjörlum Arctic Circle ráðstefnunnar sem fram fór 10.-12. október í Hörpu. EFLA tók virkan þátt í ráðstefnunni og sá um skipulagningu tveggja málstofa ásamt því að bjóða gestum í fyrirtækjaheimsókn.

Alþjóðlega ráðstefnan Arctic Circle, eða Hringborð Norðurslóða, er haldin árlega og þangað koma saman ólíkir aðilar frá um 60 löndum til að ræða málefni norðurslóðanna og loftslagsmál. Þátttakendur á ráðstefnunni voru yfir 2000 talsins og haldnar voru um 200 málstofur. EFLA, ásamt samstarfsaðilum, sá um skipulagningu tveggja málstofa, önnur var um uppbyggingu í Finnafirði og hin var um álagsmat og ferðaþjónustutengd málefni.

Uppbygging í Finnafirði

Á fimmtudeginum hélt EFLA málstofu með bremenports þar sem umfjöllunarefnið var þróun og uppbygging hafnarstarfsemi í Finnafirði. Ræðumennirnir voru fjórir og hélt hver um sig stutt erindi um aðkomu að verkefninu.

Hafsteinn Helgason, frá EFLU, ræddi um kosti uppbyggingar á áður óbyggðum slóðum, meðal annars m.t.t. vals á sjálfbærri starfsemi innan svæðisins og innleiðingar nýjustu tækni alveg frá upphafi. Robert Howe, forstjóri Bremenports, fjallaði um stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, sérstaklega varðandi uppbyggingu grænna hafna. Auðunn Kristinsson, yfirmaður skiparekstrar og viðbragðs frá Landhelgisgæslunni, fjallaði um hvernig starfsemi gæslunnar er að breytast og hversu mikilvægt það væri fyrir Landhelgisgæsluna og sjófarendur almennt að hafa góða og örugga hafnaraðstöðu með öflugum dráttarbátarekstri. Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, ræddi að endingu um hvernig hafnarverkefnið gæti búið til fjölbreyttari atvinnumöguleika á svæðinu.

Í lok málstofunnar gátu gestir skrifað spurningar á blað og fyrirlesarar svöruðu þeim í pallborði og skapaðist góð umræða um málefni og uppbyggingu í Finnafirði.

Uppbygging ferðaþjónustu og álag á ferðamannastaði

Laugardaginn 12. október hélt EFLA, ásamt Rannsóknarmiðstöð Ferðamála, málstofu um álagsmat og uppbyggingu ferðaþjónustu á norðurslóðum. Fulltrúar ferðamála frá Grænlandi, Færeyjum, Maine og Íslandi héldu erindi um ferðaþjónustu í löndum sínum.

Framkvæmdastjóri Visit Greenland, Julia Pars, sagði frá áformum Grænlendinga um uppbyggingu innviða og ferðaþjónustu í landinu. Høgni Reistrup frá Færeyjum sagði frá óhefðbundinni markaðssetningu á samfélagsmiðlum til að vekja athygli ferðamanna á Færeyjum. Tracy Michaud, prófessor við Háskólann í Suður-Maine og Háskólann í Reykjavík, fjallaði um ferðamennsku í fylkinu Maine í Bandaríkjunum. Þar hefur ferðamennskan byggst upp yfir 200 ára tímabil og árlega sækja svæðið um 37 milljón ferðamanna. Þar er einnig horft til enn frekari uppbyggingar og styrkingu ferðaþjónustunnar allt árið um kring.

Að lokum fjallaði Ólafur Árnason, frá EFLU, um þróun ferðaþjónustu á Ísland síðustu árin, stefnumótun í ferðaþjónustu til framtíðar og Jafnvægisás ferðamála sem unninn var fyrir ráðherra atvinnuvega, nýsköpunar og ferðamála. Í Jafnvægisásnum er lagt mat á alla helstu snertifleti ferðamanna á Íslandi og áhrif þeirra á samfélag, umhverfi og efnahag. Jafnvægisásinn mun nýtast við stefnumótun á sviði ferðamála í þeim tilgangi til að stuðla að jafnvægi á milli allra vídda sjálfbærrar þróunar.

Í lok erinda fóru fram pallborðsumræður þar sem Óskar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, og Ray Salter, ráðgjafi frá TRC Tourism og fyrrverandi skrifstofustjóri ferðamálaráðuneytis Nýja Sjálands tóku þátt í ásamt formælendum.

Erfiðar aðstæður vegna veðurfars og aðstæðna

Sunnudaginn 13. október var EFLA með móttöku fyrir gesti ráðstefnunnar þar sem fjallað var um helstu verkefni fyrirtækisins sem snúa að innviðum í öfgaveðri. Hafsteinn Helgason flutti erindi fyrir hópinn og í lokin var stutt stund fyrir spjall og spurningar.

Erindið tók fyrir ýmis dæmi um það hvernig EFLA hefur þurft að hafa staðsetningu verkefna sinna á norðurslóðum í huga snemma á hönnunarstigi þegar kemur að öfgaveðri og erfiðum byggingaraðstæðum. Rætt var mikilvægi þess að verkfræðingar með reynslu af slíkum verkefnum kæmu að verkefnum á norðurslóðum, til dæmis vegna innviðauppbyggingar í Grænlandi vegna ferðaþjónustu eða verkefna sem verða til vegna bráðnunar á norðurskautinu og þar með opnunar á sjávarleiðum. Gestir sem komu í heimsóknina var mjög áhugasamt og það sást vel á þeim umræðum sem sköpuðust í lokin við starfsfólk EFLU sem var á svæðinu.