Fréttir


Fréttir

Háskóli Íslands hlýtur ISO-vottanir

28.5.2021

Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands hefur hlotið ISO 45001 og ISO 14001 vottanir. EFLA veitti ráðgjöf og aðstoðaði HÍ við innleiðingu á þessum stjórnunarstöðlum.

  • Háskóli Íslands
    Háskóli Íslands hefur hlotið ISO 45001 og ISO 14001 vottanir.

Það verður sífellt algengara að fyrirtæki og stofnanir taki meiri ábyrgð á eigin áhrifum á umhverfið og á vinnumhverfi starfsmanna er þá gjarnan horft til alþjóðlegra vottunarstaðla til að styrkja slíkt starf. Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræði sinnir m.a. margvíslegum réttarefnafræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu og dómsyfirvöld, túlkar og metur mæliniðurstöður og heldur utan um margvísleg mengunar- og eiturefnamælingar. Þá skipa vísindarannsóknir stóran sess í starfseminni auk þess sem starfsfólk sinnir kennslu í HÍ. 

Til að efla enn frekar innra starf og skapa betri vinnuaðstæður fyrir starfsfólk var ákveðið að innleiða skilvirkt og markvisst stjórnkerfi á sviði umhverfisstjórnunar og heilbrigðis- og öryggisstjórnunar.

ISO 14001 Umhverfisstjórnunarvottun

Innleiðing umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001 hefur það markmið að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni með stöðugum umbótum og jafnframt auka jákvæð áhrif. Virk umhverfisstjórnun felur m.a. í sér innleiðingu á umhverfisstefnu, setningu mælanlegra markmiða og aðgerðaráætlunar. Auk þess er skilgreint skilvirkt verklag sem styður við umhverfisstefnuna.

ISO 45001 Heilbrigðis- og öryggisstjórnunarvottun

Innleiðing á heilbrigðis- og öryggisstaðlinum ISO 45001 hefur það markmið að koma í veg fyrir vinnuslys og auka heilbrigði og öryggi á vinnustað. Markmiðið er að allir starfsmenn fari heilir heim á sál og líkama eftir vinnudaginn.

Ráðgjöf í vottunum stjórnkerfa

EFLA hefur um árabil veitt þjónustu varðandi innleiðingu á stjórnkerfisstöðlum ISO 14001 og ISO 45001, sem felur m.a. í sér ráðgjöf vegna stefnumótunar, setningu markmiða, skilgreiningu aðgerða, innleiðingu verklags auk þess að astoða við vottunarferli.

EFLA óskar starfsfólki HÍ hjartanlega til hamingju með vottun á stjórnkerfi skólans skv. ISO 14001 og ISO 45001 stjórnunarstöðlunum. Þess má geta að þetta eru fyrstu ISO 14001 og ISO 45001 vottanirnar sem HÍ hlýtur í starfsemi sinni.