Fréttir


Fréttir

Skosk lýsingarhönnunarstofa verður dótturfyrirtæki EFLU

KSLD, dótturfyrirtæki, Kevan Shaw, Skotland, Lýsing, Sameining

19.11.2018

EFLA verkfræðistofa tilkynnir sameiningu lýsingarhönnunarstofunnar KSLD við EFLU. Stofan er vel þekkt innan fagsins og státar af fjölmörgum verðlaunuðum verkefnum, í Bretlandi og á alþjóðavísu. 

KSLD er skosk hönnunarstofa sem var stofnuð í Edinborg árið 1989 af Kevan Shaw, lýsingarhönnuði. Stofan hefur byggt upp gott orðspor fyrir framúrskarandi lýsingarhönnun í næstum þrjá áratugi sem dæmin sýna á vef stofunnar. Meðal verkefna stofunnar er lýsingarhönnun í söfnum, galleríum, hótelum, veitingastöðum, verslunum og sögulegum byggingum. "Ég er virkilega spenntur fyrir þeim tækifærum sem skapast við að verða dótturfyrirtæki EFLU. Ásamt möguleikum til stækkunar gerir náið samstarf við verkfræðinga EFLU okkur kleift að bjóða upp á samþættar hönnunarlausnir í verkefnum okkar." segir Kevan Shaw.

Farsælt samstarf

Fyrirtækin hafa átt samstarf um langt skeið og með sameiningunni verður KSLD hluti af lýsingarsviði EFLU. Með sameiningunni styrkist lýsingarhönnunarteymi EFLU enn frekar sem veitir fjölbreyttar lausnir á alþjóðavettvangi. Lögð er áhersla á lýsingarhönnun sem dregur fram formáherslur mannvirkja, gæðir þau lífi og bætir sjónræna upplifun notenda. 

Lýsingarsvið EFLU og KSLD verða með starfsstöðvar í Reykjavík, Edinborg og í Osló. Kewin Shaw tekur við starfi hönnunarstjóra og Kristján Kristjánsson, fagstjóri lýsingarsviðs fer fyrir þjónustunni.  "Þetta eru afar spennandi tímar fyrir okkur á lýsingarsviði EFLU. Samstarf okkar við KSLD hefur átt sér stað um nokkurt skeið og getum við nú loks sameinað krafta okkar, stillt saman strengi og leyft öflugum hóp lýsingarhönnuða að skína enn skærar." segir Kristján Kristjánsson.

LysingarteymiÁgúst Gunnlaugsson, Kevan Shaw, Kristján Kristjánsson og Davíð Sölvason frá EFLU og KSLD.

Nánari upplýsingar um lýsingarhönnun EFLU.

Nánari upplýsingar um KSLD.