Tilnefning til Darc Awards lýsingarverðlauna
Tilnefnd, Darc Awards, Lýsingarverðlaun, Lýsingarhönnun, Verðlaun
EFLA hefur verið tilnefnd til alþjóðlegra lýsingarverðlauna, Darc Awards 2018, fyrir hönnun lýsingar í Raufarhólshelli. Tilnefningin er í flokki landslagslýsingar, Best landscape lighting scheme, en 24 önnur alþjóðleg verkefni eru tilnefnd í flokknum.
-
Lýsingarhönnun Raufarhólshellis er tilkomumikil.
Lýsingarhönnun EFLU í Raufarhólshelli hefur vakið verðskuldaða athygli og hlaut meðal annars íslensku lýsingarverðlaunin í flokki útilýsingar 2018. Raufarhólshellir er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á Suðurlandi og gegnir lýsingarhönnunin stóru hlutverki í upplifun gesta í hellinum. Einnig kom EFLA að uppbyggingu Raufarhólshellis með fjölbreyttum hætti og sá m.a. um hönnun og aðstoð vegna framkvæmda á staðnum.
Samspil skugga og ljóss
Lýsingarteymi EFLU lagði áherslu á að skapa sterkt samspil skugga og ljóss til að ná fram sem náttúrulegastri birtingarmynd á liti hellarins. Lýsingin stigmagnast eftir því sem innar er komið í hellinn og lýsir vel upp jarðfræðilega hápunkta hans. Göngustígalýsing spilar vel saman við umhverfið með lágstemmdum hætti.
Úrslit tilkynnt í desember
Darc Awards eru ein virtustu lýsingarverðlaun í heimi og er tilnefningin okkur mikil hvatning. Úrslit verða kunngjörð í desember, en hægt er að sjá öll verkefni sem voru tilnefnd til verðlauna á vefsíðu Darc Awards. Þess má einnig geta að lýsingarteymi EFLU hlaut Darc Awards árið 2016 fyrir lýsingarhönnun í ísgöngunum í Langjökli.