Alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma

13.04.2021

Fréttir
Geothermal area with steaming blue water and a text "World geothermal congress 2020 Reykjavik"

Stærsta ráðstefna heims um jarðvarma, World Geothermal Congress, fer fram á Íslandi.

EFLA tekur þátt í World Geothermal Congress, WGC, sem er haldin á Íslandi og í netheimum og flytja fulltrúar fyrirtækisins tvö erindi á viðburðinum.

Alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma

World Geothermal Congress er stærsta jarðvarmasýning heims og fer fram á fimm ára fresti víðs vegar um heiminn. Sýningin átti upphaflega að fara fram á Íslandi á síðasta ári en óhefðbundnir tímar kölluðu á nýja nálgun. Því var ákveðið að hefja viðburðinn í netheimum með fimm fundardögum, í fjórum hollum frá apríl til júlí, þar sem hver dagur hefur ákveðið þema.

Stefnt er að því að halda viðburð í Hörpu 24.-27. október næstkomandi þar sem fræðsla, viðburðir og kynningar á alþjóðlegum verkefnum í jarðvarma fer fram. Markmið WGC er að leiða saman helstu sérfræðinga, vísindamenn, stjórnvöld og aðra hagaðila til að ræða nýtingu auðlinda á sjálfbæran og vistvænan máta.

Dýrmæt þekking á jarðvarma hérlendis

EFLA er eitt af íslenskum þekkingarfyrirtækjum á sviði jarðvarma sem tekur þátt í sýningunni. Jarðvarmaþekking Íslendinga er mikilvæg útflutningsvara og dýrmæt þekking og reynsla sem fyrirtæki hérlendis hafa unnið að á síðustu misserum. Nú þegar allur heimurinn stendur frammi fyrir því að skipta út jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega og sjálfbæra orku skiptir miklu máli að deila þekkingu og reynslu.

Erindi um vistferilsgreiningu og húshitun með vistvænni orku

EFLA hefur unnið að margvíslegum verkefnum í fjölnýtingu jarðvarma og á ráðstefnunni flytja fulltrúar fyrirtækisins erindi um nýleg verkefni. Annað verkefnið, flutt af Alexöndru Kjeld, fjallar um vistferilsgreiningu á Þeistareykjavirkjun, nýjustu jarðvarmavirkjun landsins, en greiningin leggur mat á umhverfisáhrif stöðvarinnar á líftímanum og var unnin fyrir Landsvirkjun. Hitt erindið, sem Heimir Hjartarson hjá EFLU flytur, fjallar um þær aðferðir sem stjórnvöld hafa notað til að stuðla að þeim viðamiklu breytingum sem hafa átt sér stað hérlendis varðandi húshitun og hagrænan ávinning þess að skipta yfir í vistvæna orku.

Það er Orkuklasinn (Iceland Geothermal) og Grænvangur (Green by Iceland) sem sjá um skipulagningu viðburðarins.

Hægt er að kaupa miða á rafræna viðburði ráðstefnunnar á vef WGC.

Nánar um þjónustu EFLU á sviði jarðvarma