Niðurstöður talningar á Vatnsdalshólum

19.10.2018

Fréttir
landscape of hilly terrain with various shades of brown and green

Vatnsdalshólar í Austur-Húnavatnssýslu.

Þá er komið að því sem margir hafa beðið eftir. Vatnsdalshólarnir í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið taldir út frá tveimur skilgreiningum. Getspakir landsmenn fengu tækifæri á að giska á fjöldann í Facebook-leik EFLU og liggja úrslitin fyrir.

Stærsta áskorunin við að telja hólana var hvernig skilgreina ætti fyrirbærið hól þar sem engin fræðileg skilgreining né hæðarviðmið liggja þar að baki. Því ákváðu sérfræðingar EFLU í landupplýsingakerfum að styðjast við tvær skilgreiningar á hugtakinu „hvað er hóll“.

Skilgreining 1

Fyrri skilgreining EFLU miðaði við að hóll væri svæði þar sem land rís upp í að minnsta kosti 50 cm hæð úr öllum hliðum og telst sem ein eigind. Ef miðað er við þessa skilgreiningu falla öll svæði sem gætu verið kölluð hryggir og hæðir undir skilgreininguna og þá er ekki gert ráð fyrir að hólar geti risið upp af öðrum stærri hólum eða hæðum. Miðað við þessa skilgreiningu eru hólarnir á svæðinu 729 talsins.

Skilgreining 2

Önnur skilgreining EFLU miðaði við hólar á svæðinu væru allir toppar og urðu þeir að ná í það minnsta eins metra hæð. Þá fást í raun hólar ofan á hóla og því teljast þeir mun fleiri á svæðinu. Miðað við þá skilgreiningu eru hólarnir á svæðinu 1836 talsins.

Niðurstöður kynntar í Landanum

Sjónvarpsþátturinn vinsæli á RÚV fylgdist með talningunni og voru niðurstöður talningarinnar opinberaðar í þættinum 21. október. Innslagið hefst á mínútu 9:25.

Sigurvegarar Facebook-leiks

Góð þátttaka var í Vatnsdalshólaleiknum á Facebook og Instagram og giskuðu 323 manns á fjölda hólanna. Langflestir, eða 33% af þeim sem tóku þátt, giskuðu á að fjöldi hólanna væru á bilinu 1000-1500.

Það var Júlía Árnadóttir sem giskaði á að Vatnsdalshólarnir væru 731 og komst hún sem næst skilgreiningu 1.

Stefán Guðnason var næstur fjöldatölu samkvæmt skilgreiningu 2 en hann skaut á töluna 1863.

Júlía og Stefán hljóta í verðlaun þráðlaus Bose, quiet comfort 35 II, heyrnartól. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju og þökkum öllum þeim sem tóku þátt í leiknum.

Eru Vatnsdalshólar þá ekki lengur óteljandi?

Með hjálp landupplýsingaforrita og háskerpumynda úr dróna er hægt eftir ákveðinni skilgreiningu að telja hólana. Þannig var ákveðið að nota tvær mismunandi skilgreiningar til að sýna fram á þann mikla mun á fjöldatölum hólanna eftir því hvaða skilgreining er notuð. Því má segja að samkvæmt fyrirfram ákveðnum skilgreiningum á því hvað hóll er, er hægt að telja hólana. En eflaust sýnist sitt hverjum um réttmæti þeirrar skilgreiningar.

Hjörtur Örn Arnarson, landfræðingur hjá EFLU, fer yfir skilgreiningarnar tvær í neðangreindu myndbandi.

Tengdar fréttir

Eru Vatnsdalshólar óteljandi?

Vilt þú giska á fjölda Vatnsdalshóla?

Verkefnalýsing