Ný lágvarmavirkjun tekin í gagnið

13.05.2019

Fréttir
A geothermal power plant featuring steam rising from the ground against vivid sunset

Nýja jarðvarmavirkjunin er við Kópsvatn á Flúðum í Hrunamannahreppi.

Á Flúðum hefur nýjasta lághita jarðvarmavirkjun landsins verið tekin í notkun. Í virkjuninni er notast við nýja tækni við nýtingu lághita til framleiðslu rafmagns. EFLA sá um ráðgjöf og hönnun lagna og dæla fyrir öll kerfi virkjunarinnar.

Uppsett afl virkjunarinnar er 600 kW af raforku í fyrsta áfanga en þegar full framleiðsla verður komin í gang verður uppsett afl 1,2 MW. Rarik kaupir raforkuna og hleypir inn á kerfið hjá sér og mun Hitaveita Flúða sjá um rekstur virkjunarinnar.

Aukið notkunargildi og minni sóun

Rafmagnsframleiðslan verður með fjórum smáum einingum sem lækka hitastig vatnsins. Með framleiðslueiningunum er jarðvarmavatnið, sem er í kringum 115°C, kælt niður í um 80°C og þannig skapast aðstæður til raforkuframleiðslu ásamt því að hægt er að nýta vatnið til húshitunar.

Það sem er einstakt við verkefnið er að verið er nýta jarðhita með nýrri tækni, framleiðslueiningunum, og framleiða rafmagn úr endurnýjanlegri auðlind. Tæknin byggist á tvívökva tækni en þá er jarðhitavatnið notað til að eima vinnuvökva sem er inn í einingunum. Vinnuvökvinn fer í gegnum hverfil sem knýr rafal sem býr til rafmagn. Tækni við tvívökvavirkjun er þekkt en þessar nýju framleiðslueiningar ná hærri nýtni úr lághita en hefur sést áður. Áður fyrr var talið óhagkvæmt að framleiða rafmagn úr lágvarma á Íslandi vegna lágs orkuverðs. Með þessum hætti er því bæði verið auka notkunargildi jarðhitasvæða og minnka sóun með því að nýta jarðvarma sem hefur áður fyrr verið talið óhagkvæmt að nýta. Sjá einnig frétt frá 26. júní 2018.

three giant silver industrial equipment

Jarðvarmavirkjunin þarf mikið magn af kælivatni og eru notaðir opnir kæliturnar.

Horft til fleiri svæða

Íslenska jarðvarmafyrirtækið Varmaorka sér um framkvæmd verkefnisins og sænski framleiðandinn Climeon sér virkjuninni fyrir framleiðslueiningunum sem framleiða rafmagn. Varmaorka gerir ráð fyrir að hægt verði að nýta lághita til raforkuframleiðslu á fleiri stöðum á landinu og stefnir á framleiðslu á 10 – 15 svæðum til viðbótar á næstu árum.

Öflug þekking á lágvarma

EFLA býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á virkjun jarðvarma og hefur komið að fjölmörgum verkefnum því tengdu, bæði innanlands og erlendis. Í því sambandi má meðal annars nefna að EFLA kom að uppsetningu tvívökvavirkjunar í Svartsengi sem framleiðir 9 MW úr vannýttri strompgufu á svæðinu.